Innlent

Sagt upp 64 ára eftir 20 ár í starfi

Snorri Másson skrifar
Einkaaðilar tóku nýlega við rekstri hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri.
Einkaaðilar tóku nýlega við rekstri hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri. Akureyrarbær

Sextíu og fjögurra ára gamalli konu með 20 ára starfsreynslu var sagt upp störfum á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri á dögunum, en ætla má að uppsögnin sé liður í hagræðingaraðgerðum nýrra rekstraraðila heimilisins, sem tóku við fyrir skemmstu.

Reksturinn var einkavæddur í apríl og nýr rekstraraðili, Heilsuvernd Hjúkrunarheimili ehf., tók við. Þar með lét Akureyrarbær af rekstri heimilisins og útvistaði honum til Heilsuverndar.

Starfskrafta umræddrar konu er ekki óskað meðan á sex mánaða uppsagnarfrestinum stendur, en hún fær hann allan greiddan.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar, sem undirritaði samninginn við Heilsuvernd um rekstur hjúkrunarheimilisins, sagði í viðtali við N4 í apríl að gera mætti ráð fyrir að rekstrarkostnaðurinn myndi lækka töluvert eftir því sem nýir starfsmenn yrðu ráðnir inn á nýjum samningum.

Drífa Snædal forseti ASÍ segir frá uppsögninni á Facebook-síðu sinni og gagnrýnir um leið ráðstöfun Heilsuverndar.

„Heilsuvernd Hjúkrunarheimili ehf. eru tekin við rekstrinum á Hlíð á Akureyri og tvínóna ekki við hlutina. 64 ára gömul kona sem hefur starfað á hjúkrunarheimilinu í 20 fékk sent þetta bréf. Svei þeim og svei arðvæðingunni! Nú á að losa sig við “dýra” starfsfólkið og ná “hagræðingu”. Starfsfólkið er fyrst til að taka skellinn, þetta líðst með vitund og vilja ríkis og sveitarfélagsins!“

Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, sagði í viðtali við Vísi í maí að ljóst væri að nýir samningar yrðu ólíkir fyrri samningunum, en sagði meininguna ekki þá að breyta þeim eitthvað stórkostlega.

Björn Snæ­björns­son, for­maður Starfs­greina­sam­bandsins (SGS) og stéttar­fé­lagsins Einingar-Iðju, sem er stéttar­fé­lag flestra starfs­manna Öldrunar­heimilanna, gagnrýndi orð bæjarstjórans á sínum tíma og þótti þau vond skila­boð inn í samninga­við­ræður sem ekki voru hafnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.