Enski boltinn

Kieran Trippier og Raphael Varane sagðir vera of dýrir fyrir Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Endursöluverð Kieran Trippier er ekki hátt og það gæti verið að trufla forráðamenn Manchester United.
Endursöluverð Kieran Trippier er ekki hátt og það gæti verið að trufla forráðamenn Manchester United. Getty/Shaun Botterill

Manchester United gæti verið að gefa upp vonina um að kaupa varnarmennina Kieran Trippier og Raphael Varane í sumar.

ESPN hefur heimildir fyrir því að leikmennirnir séu hreinlega of dýrir fyrir Manchester United.

United er með miðvörð og hægri bakvörð á óskalista sínum fyrir næsta tímabil og þeir Kieran Trippier og Raphael Varane þóttu báðir mjög góðir kostir.

Kieran Trippier vill komast aftur í ensku úrvalsdeildina eftir tvö ár hjá Atletico Madrid. Spænska félagið vill hins vegar fá meira en þrjátíu milljónir punda fyrir hann sem United þykir of mikið fyrir þrítugan leikmann.

United er líka þegar búið að eyða fimmtíu milljónum punda í hægri bakvörðinn Aaron Wan-Bissaka sem félagið keypti frá Crystal Palace árið 2018.

Varane hefur verið lengi á óskalista Manchester United en samningsstaða hans hjá Real Madrid gæti opnað fyrir möguleikann á að kaupa hann. Franski miðvörðurinn á bara eitt ár eftir af samningi sínum og sagður vilja prófa eitthvað nýtt.

Það flækir aftur á móti málið að hinn miðvörðurinn, Sergio Ramos, er farinn og ef Real Madrid missir þá báða þá þarf félagið að kaupa tvo miðverði. United hefur ekki áhuga á Ramos samkvæmt frétt ESPN.

Real Madrid vill hins vegar fá meira en sjötíu milljónir punda fyrir Varane þrátt fyrir að hann eigi bara eitt ár eftir af samningi sínum. Það þykir forráðamönnum Manchester United vera of mikið.

Verði ekkert af kaupunum á Trippier og Varane, þá gæti United reynt að kaupa í staðinn bakvörðinn Max Aarons frá Norwich og miðvörðinn Pau Torres frá Villarreal.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.