Erlent

Sænska ríkis­stjórnin gæti fallið á mánu­dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vel gæti farið svo að ríkisstjórn Stefans Löfvens muni falla eftir helgi.
Vel gæti farið svo að ríkisstjórn Stefans Löfvens muni falla eftir helgi. Janerik Henriksson/TT via AP

Sænska þingið mun greiða atkvæði um vantrauststillögu Svíþjóðardemókrata á ríkisstjórn Stefan Löfven á mánudag.

Vantraustið snýr að ákvörðun um að aflétta þaki á leigu á nýju húsnæði, sem eru talin svik við sænsku húsnæðisleiðina. Verði vantrauststillagan samþykkt þarf annað hvort að mynda nýja ríkisstjórn eða boða til nýrra kosninga í haust.

Ákvörðunin um að aflétta umræddu leiguþaki á nýju húsnæði var ein forsenda þess að minnihlutastjórn Græningja og Sósíaldemókrata yrði varin falli af sænska Miðflokknum og Frjálslynda flokknum. Stjórnin er þó einnig varin af Vinstriflokknum, sem er á móti afléttingunni.

Sérfræðingar ytra telja hins vegar líklegt að vantrauststillagan verði samþykkt. Þá þarf annað hvort að mynda nýja ríkisstjórn, eða boða til nýrra kosninga. Síðast var kosið til þings í Svíþjóð í september 2018. Að loknum löngum og erfiðum stjórnarmyndunarviðræðum var niðurstaðan áðurgreind, minnihlutastjórn sem þrír flokkar vörðu falli.

Löfven sjálfur telur það óábyrgt að fara fram með atkvæðagreiðsluna, sem Svíþjóðardemókratar eiga frumkvæði að, en er talin vera meirihluti fyrir með stuðningi Kristilegra Demókrata, Vinstriflokksins og Moderaterna.

„Þetta er ekki það sem sænskur almenningur býst við að fá út úr stjórnmálum. Þetta er hættuleg braut sem Vinstriflokkurinn er að feta ásamt hægra-íhaldinu,“ hefur sænska ríkisútvarpið eftir Löfven, sem segir ríkisstjórnina ekki vera nálægt því að hafa lokið vinnu við frumvarp um afléttingu leiguþaks á nýtt húsnæði. Því sé vantrauststillagan einfaldlega ótímabær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.