Erlent

Biden á­nægður með fundinn en hóf­lega bjart­sýnn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fundur forsetanna tók styttri tíma en búist var við.
Fundur forsetanna tók styttri tíma en búist var við. Denis Balibouse - Pool/Keystone via Getty

Joe Biden Bandaríkjaforseti kveðst ánægður með fund sinn við rússneska kollega sinn, Vladímír Pútín. Forsetarnir funduðu í Genf í Sviss í dag.

Bandarískir fjölmiðlar hafa eftir Biden að hann hafi á fundinum „gert það sem hann kom til að gera.“ Pútín og Biden ræddu saman í fjóra tíma, en það er styttra en gert var ráð fyrir. Biden sagði fundinn ekki hafa þurft að vera lengri.

Bandaríkjaforsetinn sagðist þá hafa gert Pútín það ljóst að hann myndi bregðast við mögulegum tilraunum Rússa til þess að standa í vafasömu athæfi gagnvart Bandaríkjunum, til að mynda reyna að hafa áhrif á bandarískar kosningar eða stunda netárásir á Bandaríkin.

Biden sagði þá að Pútín gerði sér grein fyrir því að afleiðingar fylgdu slíkum gjörðum og að trúverðugleiki Rússlands „skryppi saman“ þegar það stæði í netárásum á aðrar þjóðir. Þá gaf hann það í skyn að Bandaríkin myndu grípa til aðgerða ef Alexei Navalní, þekktasti stjórnarandstæðingur Rússlands, myndi deyja í fangelsi.

Þó að Biden virtist ánægður með fundinn svaraði hann spurningum um hvort hann héldi að Pútín myndi breyta hegðun sinni gagnvart Bandaríkjunum á varfærinn hátt.

„Ég er ekki viss um neitt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×