Fótbolti

Ramos yfirgefur Real eftir 16 ára veru í Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sergio Ramos mun ekki lyfta fleiri titlum í treyju Real Madrid.
Sergio Ramos mun ekki lyfta fleiri titlum í treyju Real Madrid. Denis Doyle/Getty Images

Spænska stórveldið Real Madrid tilkynnti í dag að á morgun yrði haldinn blaðamannafundur þar sem Sergio Ramos, fyrirliði liðsins, myndi tilkynna að hann yrði ekki áfram í herbúðum liðsins.

Þetta hefur legið í loftinu í dágóðan tíma en hinn 35 ára gamli Ramos hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið og því er honum frjálst að fara þar sem samningur hans er í þann mund að renna út.

Carlo Ancelotti, nýráðinn stjóri Real, reyndi að sannfæra Ramos um að vera áfram en án árangurs.

Ramos hefur verið hjá Real Madrid í 16 ár og spilað alls 671 leik. Þá hefur hann skorað 101 mark, ótrúlegur fjöldi fyrir mann sem spilar sem miðvörður.

Tími Ramos hjá Real hefur verið einkar sigursæll en fimm sinnum varð liðið Spánarmeistari, fjórum sinnum vann það Meistaradeild Evrópu, tvívegis vann það bikarinn, fjórum sinnum vann það spænska Ofurbikarinn, þrisvar Ofurbikar Evrópu og fjórum sinnum HM félagsliða.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.