Erlent

Suðurkóreskur dómstóll segir munnmök tveggja karla jaðra við nauðgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðgerðasinnar mótmæla við varnarmálaráðuneytið í Seúl.
Aðgerðasinnar mótmæla við varnarmálaráðuneytið í Seúl. epa/Yonhap

Suðurkóreskur herdómstóll hefur dæmt tvo menn í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stundað munnmök. Mennirnir eru sagðir hafa brotið gegn ákvæðum herlaga, sem banna endaþarmsmök og aðrar „ósæmilegar“ athafnir.

Í dómsorðinu segir að gjörningur mannanna hafi jaðrað við nauðgun.

Dómurinn féll í mars síðastliðnum en atvikin sem mennirnir voru dæmdir fyrir áttu sér stað í desember. Mennirnir voru þá í einangrun ásamt öðrum en tvö kvöld í röð læddist annar inn í tjald til hins, þar sem þeir stunduðu munnmök.

Lögmaður mannanna sagði munnmökin hafa átt sér stað með samþykki beggja og því væru þeir saklausir. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að með munnmökunum hefðu mennirnir brotið hvor á öðrum.

Þá jaðraði gjörningurinn við nauðgun, gengi gegn almennu siðferði og væri til þess fallinn að grafa alvarlega undan aga innan hersins.

Samkynhneigð er ekki ólögleg í Suður-Kóreu en þykir tabú. Forsetinn Moon Jae-in, fyrrverandi mannréttindalögfræðingur, sagði til að mynda í aðdraganda forsetakosninganna að honum mislíkaði samkynhneigð.

Umrætt ákvæði herlaga hefur áður verið notað til að ofsækja samkynhneigða hermenn. Þá hefur verið greint frá því að þeir séu látnir sæta meðferð vegna geðrænna vandamála.

Samkvæmt Guardian var liðþjálfinn Byun Hee-soo rekinn úr hernum eftir að hún gekkst undir kynleiðréttingaraðgerð. Ástæðan var sögð fötlun. Hún fannst látin fyrr á þessu ári.

Ýmis alþjóðleg samtök hafa kallað eftir því að herlögunum verði breytt og ákvæðið tekið út.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×