Fótbolti

Valsmenn gátu ekki fengið erfiðari andstæðing

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn voru ekki heppnir með drátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Valsmenn voru ekki heppnir með drátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. vísir/hulda margrét

Íslandsmeistarar Vals mæta Dinamo Zagreb í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Dregið var í dag.

Dinamo Zagreb eru króatískir meistarar og langsterkasta liðið sem Valur gat fengið. Dinamo Zagreb á hvorki fleiri né færri en átta leikmenn á Evrópumótinu og hefur 22 sinnum orðið króatískur meistari, þar af fjórum sinnum í röð.

Valur gat einnig mætt Ferencváros frá Ungverjalandi, Zalgaris frá Litáen og Flora Tallin frá Eistlandi.

Dinamo Zagreb vann sinn riðil í Evrópudeildinni, sló Krasnodar út í 32-liða úrslitunum og Tottenham í sextán liða úrslitunum. Í átta liða úrslitunum féll Dinamo Zagreb út fyrir Villarreal sem fór svo alla leið og vann Evrópudeildina.

Ef Valsmenn komast áfram fá þeir allavega sex Evrópuleiki til viðbótar. Ef þeir tapa fara þeir í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar (Europa Conference League), nýrrar Evrópukeppni.

Fyrri leikur Vals og Dinamo Zagreb fer fram í Króatíu 6. eða 7. júlí og seinni leikurinn á Origo-vellinum á Hlíðarenda 13. eða 14. júlí.

Alfons Sampsted og félagar í norska meistaraliðinu Bodø/Glimt mæta Legia Varsjá frá Póllandi.

Rúmensku meistararnir í Cluj, sem Rúnar Már Sigurjónsson spilar með, mætir Borac Banja Luka frá Bosníu.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×