Innlent

Gekk berserksgang í sameign fjölbýlishúss

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Egill

Töluvert annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt, meðal annars vegna óspekta bæði innan- og utandyra.

Um klukkan 17 var lögregla kölluð til vegna manns sem gekk berserksgang í sameign fjölbýlishúss í Grafarvogi. Hann var í annarlegu ástandi, sinnti ekki fyrirmælum lögreglu og var með ógnandi tilburði. Maðurinn var því handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Stuttu seinna barst tilkynning um mann sem lá hreyfingarlaus á jörðinni í póstnúmerinu 108. Í ljós kom að viðkomandi svaf ölvunarsvefni og þegar lögreglu tókst að vekja hann hélt hann sína leið.

Um kl. 21 var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi sem var að angra viðskiptavini á veitingastað í Hlíðunum. Þegar lögregla mætti á vettvang neitaði maðurinn að gefa upp persónuupplýsingar og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar gaf hann sig og fór svo frjáls ferða sinna.

Eftir miðnætti ók leigubílstjóri inn á bílastæði lögreglu í miðborginni vegna farþega sem höfðu frammi hótanir í hans garð. Þá óskaði öryggisvörður aðstoðar lögreglu vegna ölvaðs einstaklings í bílastæðahúsi.

Rétt fyrir kl. 3 í nótt var kvartað vegna hávaða utandyra vegna knattspyrnuiðkunar. Þá var kvartað vegna samkvæmishávaða í heimahúsum í Kópavogi og Hafnarfirði. 

Í Hafnarfirði var einnig tilkynnt um innbrot í heimahús og þjófnað á fellihýsi, sem stóð læst fyrir utan heimili eigandans. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×