Fótbolti

Donnar­umma búinn að semja við PSG

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Donnarumma hefur spilað 27 A-landsleiki fyrir Ítalíu.
Donnarumma hefur spilað 27 A-landsleiki fyrir Ítalíu. EPA-EFE/Alessandra Tarantino

Svo virðist sem markvörðurinn Gianluigi Donnarumma sé búinn að semja við franska stórliðið París Saint-Germain. Samningur hans gildir til ársins 2026 en læknisskoðunin fer ekki fram fyrr en eftir leik Ítalíu og Sviss.

Það er ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano sem greindi fyrstur manna frá þessu á Twitter-síðu sinni.

Þrátt fyrir ungan aldur er Donnarumma aðalmarkvörður Ítala og hefur verið í dágóðan tíma. Hann er því önnum kafinn á Evrópumótinu sem nú fer fram. Ítalía lagði Tyrkland 3-0 í fyrsta leik og mætir Sviss í öðrum leik sínum á miðvikudaginn kemur.

Að honum loknum mun hinn 22 ára gamli Donnarumma fara í læknisskoðun og í kjölfarið vera tilkynntur sem leikmaður PSG. 

Þá staðfestir Romano að markvörðurinn muni ekki fara á lán eins og talið var en það er mjög stutt síðan franska stórliðið framlengdi samning markvarðarins Kaylor Navas. Það er því ljóst að PSG ætlar sér að vera með tvo mjög færa markverði á næstu leiktíð.

Donnarumma er annar leikmaðurinn sem PSG sækir í sumar en hollenski miðjumaðurinn Gini Wijnaldum kom á frjálsri sölu frá Liverpool á dögunum. 

Talið er að PSG ætli nú að snúa sér að því að finna nýjan hægri bakvörð. Hefur Achraf Hakimi, bakvörður Ítalíumeistara Inter Milan, verið nefndur til sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×