Á sama tíma og dómstóll í Moskvu varð við kröfu saksóknara um að lýsa Sjóð gegn spillingu, samtök Navalní, öfgasamtök á miðvikudag samþykktu bandamenn Vladímírs Pútín forseta á rússneska þinginu frumvarp bannar félögum í öfgasamtökum að bjóða sig fram til opinbers embættis. Það er hluti af herferð stjórnar Pútín til þess að ganga milli bols og höfuðs á stjórnarandstöðunni fyrir þingkosningar í haust.
Reuters-fréttastofan hefur eftir rússneska innanríkisráðuneytinu að Zhdanov hafi verið settur á alríkislista yfir eftirlýst fólk. Þingmenn samþykktu einnig nýlega að þeir sem vinna með öfgasamtökum geti átt yfir höfði sér fangelsisdóma.
Hafa afhjúpað spillingu valdamanna
Sjóður Navalní gegn spillingu hefur beint spjótum sínum að háttsettum embættismönnum í Rússlandi og afhjúpað spillingu þeirra. Nýlega sökuðu samtökin Pútín forseta um að vera raunverulegan eiganda íburðarmikils sveitaseturs við Svartahaf en að eignarhaldið væri dulið með spilltum krókaleiðum. Stjórn Pútín hefur hafnað þeim ásökunum.
Svæðisskrifstofur samtaka Navalní hafa einnig haft frumkvæði að því að skipuleggja mótmæli gegn stjórnvöldum, sem flest eru lýst ólögleg, og tekið þátt í verkefni til að hjálpa kjósendum að finna þá frambjóðendur sem eiga mesta möguleika á að fella frambjóðendur flokks Pútín í kosningum.
Navalní sjálfur situr nú í fangelsi þar sem hann afplánar tveggja og hálfs árs dóm fyrir að rjúfa skilorð dóms sem hann hlaut fyrir fjárglæpi. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi þann dóm ósanngjarnan og gerræðislegan.
Fjöldi bandamanna Navalní hefur verið handtekinn og sætt húsleit að undanförnu. Stjórnvöld í Kreml umbera takmarkað andóf í Rússlandi og á tuttugu ára valdatíð Pútín hefur fjöldi stjórnarandstæðinga, andófsfólks og blaðamanna týnt lífinu við grunsamlegar aðstæður.Náinn bandamaður Navalní eftirlýstur.