Innlent

Óttast launaskerðingu með aukinni arðvæðingu

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Forseti ASÍ hefur áhyggjur af því að aukin arðvæðing í öldrunarþjónustu hér á landi leiði til kjaraskerðingar starfsfólks. Dæmi frá Norðurlöndum ættu að vera Íslendingum víti til varnaðar.

ASÍ stóð fyrir veffundi um afleiðingar einkavæðingar öldrunarþjónustu í dag, þar sem Marta Szebehely, prófessor emeritus í félagsráðgjöf við Stokkhólmsháskóla, flutti erindi um þróun og áhrif arðvæðingar öldrunarþjónustu í Svíþjóð. Drífa Snædal forseti ASÍ segir að sveitarfélög standi sum ekki undir þjónustunni.

„Og margir freistast til að setja þetta í útboð og við erum að sjá núna einkavæðingu, arðvæðingu á öldrunarþjónustu.“

Drífa segist ekki hafa séð nein merki þess að arðvæðing sé til hagsbóta fyrir notendur eða starfsfólk.

„Við vitum það að í arðvæddum félögum er starfsfólkið færra, það er verr þjálfað, verr menntað, þess vegna ódýrara,“ segir Drífa.

„Samkvæmt framlögum sjúkratrygginga til öldrunarstofnana er miðað við miklu lægri kjarasamninga heldur en eru í gildi hjá sveitarfélögunum til dæmis, þar munar 48 þúsund krónum í grunnlaunum, sem getur munað hressilega þegar álagið er komið ofan á. Þannig að við höfum mjög miklar áhyggjur af því að þetta þýði beinlínis skerðingu á launum starfsfólks.“

Uggandi yfir þróuninni

Þó verði að gera greinarmun á arðvæðingu og einkavæðingu, en hið síðarnefnda hafi oft gefið góða raun á Íslandi. Dæmi séu hins vegar um það á Norðurlöndunum að með arðvæðingu verði grunnþjónusta lakari.

„Fólk geti þá keypt sér aukaþjónustu, aukabað. Hvað sem það þýðir,“ segir Drífa.

Þannig að þetta er þróun sem þið eruð uggandi yfir? 

„Já, ég sé enga ástæðu fyrir því að arðvæða öldrunarþjónustu. Og ég vara mjög við þeirri þróun því ég hef ekki séð kosti hennar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×