Erlent

Bestu myndir af Ganýmedes í áratugi

Kjartan Kjartansson skrifar
Svarthví mynd af Ganýmedes sem Juno tók þegar farið flaug fram hjá 7. júní 2021.
Svarthví mynd af Ganýmedes sem Juno tók þegar farið flaug fram hjá 7. júní 2021. NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS

Myndir sem bandaríska geimfarið Juno tók af Ganýmedes, stærsta tungli Júpíters, og bárust til jarðar í vikunni eru þær skýrustu í áratugi. Geimfarið flaug þá nær tunglinu en nokkuð annað geimfar hefur gert frá því á síðustu öld.

Framhjáflug Juno hjá Ganýmedes átti sér stað á mánudag, 7. júní. Flaug það næst í um 1.038 kílómetra fjarlægð frá yfirborði risatunglsins. Ekkert geimfar hefur flogið svo nærri Ganýmedes frá því að Galileo, geimfar bandarísku geimvísindastofnunar NASA, gerði það í maí árið 2000.

Ganýmedes er stærsta tungl Júpíters, eitt Galíleotunglanna fjögurra, og það stærsta í sólkerfinu. Tunglið er stærra en reikistjarnan Merkúríus og er það eina í sólkerfinu sem er með eigin segulsvið. Heimsókn Juno var meðal annars ætlað að rannsaka nánar efnasamsetningu Ganýmedes, jónahvolf hans, segulsvið og ísskorpu.

Fyrstu tvær myndirnar úr framhjáfluginu bárust til jarðar í vikunni en fleiri eru væntanlegar. Á þeim sjást glöggt kennileiti á yfirborðinu eins og gígar, dökk og ljós svæði og ílangar jarðmyndarnir sem talið er að gætu tengst flekahreyfingum á tunglinu, að því er segir í tilkynningu á vef NASA.

Gígar og rákir setja svip sinn á ísilagt yfirborð Ganýmedes. Talið er að rákirnar gætu verið merki um flekahreyfingar.NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS

Náði Juno myndum af nær heilli hlið Ganýmedes. Búið er að ná í myndir frá farinu sem voru teknar með síu sem er næm fyrir grænum lit en þegar þær sem voru teknar með rauðri og blárri síu skila sér verður hægt að setja saman litmynd af ístunglinu.

Juno hefur verið á braut um Júpíter frá árinu 2016. Aðalmarkmið leiðangursins er að rannsaka uppruna, uppbyggingu og lofthjúp þessarar stærstu reikistjörnu sólkerfisins. Hefur farinu verið flogið ítrekað yfir pólsvæði Júpíters og tekið stórbrotnar myndir af skýjuðum lofthjúpi reikistjörnunnar.


Tengdar fréttir

Heiðskírt með 400 metrum á sekúndu

Veðurofsinn í heiðhvolfi Júpíters, stærstu reikistjörnu sólkerfisins, hefur nú verið mældur beint í fyrsta skipti. Vindhraðinn mældist ríflega 400 metrar á sekúndu við heimskaut gasrisans og telja stjörnufræðingar veðurfyrirbrigðið einstakt í sólkerfinu.

Bestu geimljósmyndir ársins 2019

Árið sem nú er að líða var ágætlega gjöfult þegar kom að verkefnum í geimnum og fjöldi ljósmynda frá geimförum og sjónaukum hér á jörðu niðri af plánetum og öðru sem flýtur um í geimnum litu dagsins ljós.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×