Innlent

Kölluðu eftir fleira fólki í bólu­setningu undir lok dags

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Röðin í bólusetningu fyrr í dag var löng.
Röðin í bólusetningu fyrr í dag var löng. Vísir/Egill

Um tíu þúsund manns fengu seinni skammt af bóluefni AstraZeneca við kórónuveirunni í Laugardalshöll í dag. Framkvæmdastjóri hjá heilsugæslunni segir daginn hafa verið nokkuð tvískiptan. Hluta dags var mikil umferð og nánast örtröð í og við höllina en seinna um daginn þurfti að auglýsa skammta sem annars hefðu farið til spillis.

„Þetta gekk bara vel. Það var dálítið löng biðröð sem varð því það voru svo margir sem mættu án þess að vera með strikamerki,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni, í samtali við fréttastofu.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Laugardalinn í dag, án þess að hafa fengið boðun í bólusetningu, til þess að freista þess að fá seinni skammt af bóluefni AstraZeneca. Fólk sem var bólusett með efninu fyrir átta vikum eða meira fékk boðun í dag, en Ragnheiður segir best að svo langur tími líði milli fyrri og seinni bólusetningar til að tryggja sem besta virkni efnisins.

Dregið var í handahófskennda bólusetningarröð árganga 1976 til 2005 í síðustu viku. Ragnheiður Ósk stýrði drættinum.Vísir/Vilhelm

Starfsmenn heilsugæslunnar brugðu á það ráð að beina þeim skilaboðum til fólks sem ekki hafði verið boðað að það gæti snúið aftur síðar um daginn, eftir klukkan tvö, og freistað þess að næla sér í skammt af efninu þá.

„Þá áttum við alveg eftir slatta af bóluefni og gátum boðið mjög mörgum. Svo á milli þrjú og fjögur enduðum við á því að eiga um 700 skammta og engin röð. Þá var það komið á hinn vænginn og við hefðum getað verið að missa skammta. Þá tilkynntum við að við ættum 700 skammta eftir og þá kom hellingur af fólki og við náðum að klára allt,“ segir Ragnheiður.

Sum sitja eftir með sárt ennið

Ragnheiður gerir ráð fyrir að á milli tíu og tuttugu manns hafi enn beðið bólusetningar þegar síðasti skammturinn hafði verið gefinn og bóluefnið því búið í bili. Hún segir það alvanalegt að færri komist að en vilji á gefnum bólusetningardegi, enda sé sett í forgang að koma öllu bóluefni út og ekkert fari til spillis.

Hún gerir ráð fyrir að um tvö þúsund manns hafi fengið seinni skammt af bóluefni í dag án þess að hafa haft strikamerki en vonar að sem flest þeirra sem fengu boðun í dag hafi komist og getað fengið sprautu.

Á morgun verður bólusett með bóluefni Janssen. Það er eina bóluefnið sem er í notkun hér á landi sem gefið er í einum skammti. Ragnheiður gerir ráð fyrir að tíu þúsund skammtar af efninu verði gefnir á morgun.

Meirihluti þeirra sem fá bóluefni á morgun hafa verið boðuð eftir að árganga- og kynjahópar voru dregnir í handahófskenndri röð til bólusetningarboðunar. Þó verða einhver sem fá bóluefni í krafti starfa sinna, svo sem kennarar í grunn- og leikskólum og skipa- og flugáhafnir.


Tengdar fréttir

Þeim sem ekki fá boð er vísað frá fyrri part dags

Gríðarlega löng röð hefur myndast fyrir utan Laugardalshöll, þar sem verið er að bólusetja fyrir Covid-19 með bóluefni AstraZeneca í dag. Röðin nær alla leið upp á Suðurlandsbraut og hringinn í kring um túnið við hlið hallarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×