Erlent

Upptaka af símtali Giuliani og ráðgjafa Úkraínuforseta komin í leitirnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Giuliani er nú til rannsóknar vestanhafs vegna samskipta sinna við úkraínska ráðamenn.
Giuliani er nú til rannsóknar vestanhafs vegna samskipta sinna við úkraínska ráðamenn. AP/Jacquelyn Martin

CNN hefur upptökur undir höndum þar sem Rudy Giuliani, lögmaður Donald Trump Bandaríkjarforseta, þrýstir á stjórnvöld í Úkraínu að rannsaka tilhæfulausar ásakanir á hendur Joe Biden í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Umrætt símtal átti sér stað í júlí 2019 og á línunni voru Giuliani, bandaríski sendifulltrúinn Kurt Volker og Andriy Yermak, háttsettur ráðgjafi Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu. Það átti sér stað skömmu áður en Trump ræddi sjálfur við Zelensky.

Í samtalinu, sem varði í um 40 mínútur, hvatti Giuliani Yermak ítrekað til að fá úkraínska forsetann til að tilkynna opinberlega um rannsókn á mögulegum spillingarbrotum Biden í Úkraínu og á ásökunum um afskipti Úkraínu af forsetakosningunum 2016.

„Allt sem okkur vantar frá forsetanum er að hann segi: Ég ætla að skipa heiðarlegan saksóknara til að rannsaka og grafa upp sönnunargögn sem eru þegar til og ef það eru einhver önnur sönnunargögn um afskipti af kosningunum 2016... og láta þetta Biden-dæmi spilast,“ segir Giuliani. 

Upptakan þykir grafa undan ítrekuðum staðhæfingum Trump um að það hafi aldrei verið um að ræða neitt „greiði gegn greiða“ samkomulag við Úkraínumenn um stuðning af hálfu Bandaríkjastjórnar ef þeir færu á eftir Biden.

Samskipti Trump og skósveina hans við stjórnvöld í Úkraínu voru ein ástæða þess að forsetinn var ákærður fyrir embættisglöp í fyrra skiptið. Rannsókn stendur yfir á samskiptum Giuliani við Úkraínumenn.

Í símtalinu segir borgarstjórinn fyrrverandi að samskipti ríkjanna tveggja myndu batna ef Zelensky hæfi rannsókn á Biden. Þá gerðu Giuliani og Volker úr því skóna að opinber tilkynning myndi opna dyrnar að heimsókn forsetans til Bandaríkjanna.

„Það myndi létta andrúmsloftið umtalsvert,“ segir Giuliani meðal annars.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá CNN.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.