Innlent

Segir missi að Brynjari og vill að hann endur­skoði á­kvörðun sína

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Gulli og Brynjar

Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra, sem sigraði í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík í gær, vonast til að þing­maðurinn Brynjar Níels­son endur­hugsi stöðu sína og taki þriðja sæti á öðrum lista flokksins í Reykjavík. Brynjar sóttist eftir öðru sæti í próf­kjörinu en hafnaði í því fimmta.

„Úr­slitin eru tals­verð von­brigði fyrir mig en skila­boðin eru skýr. Ég trúi því að Sjálf­stæðis­flokknum muni vegna vel í komandi kosningum. Ég kveð því stjórn­málin sáttur,“ til­kynnti Brynjar á Face­book-síðu sinni í dag.

Brynjar hefur verið nokkuð um­deildur þing­maður, kannski ögn meira en virðist óhjákvæmilega fylgja starfinu. Það er þó ljóst af við­brögðum fylgj­enda hans á Face­book við færsluna að hans verður sárt saknað af stuðnings­mönnum sínum. Og einnig af utan­ríkis­ráð­herranum Guð­laugi, sem lýsti Brynjari svo við Vísi í dag:

„Maður sem er mjög á­berandi í þjóð­mála­um­ræðunni, skarp­greindur og á auð­velt með að skilja aðal­at­riði frá auka­at­riðum.“

„Það væri mikill missir að honum ef hann væri ekki á­fram með okkur. Þó auð­vitað komi alltaf maður í manns stað þá vona ég nú að hann hugsi málið að­eins betur,“ hélt Guð­laugur á­fram og benti á að Brynjar hefði fengið „góða kosningu þrátt fyrir að hafa ekki, eins og oft gerist, fengið það sem hann vildi“.

Guðlaugur ræddi úrslit prófkjörsins við Vísis í dag.vísir/vilhelm

Guð­laugur vill því greini­lega að Brynjar taki það sæti á lista í örðu Reykja­víkur­kjör­dæminu sem kjör­stjórn myndi bjóða honum. Miðað við fimmta sæti í próf­kjörinu ætti honum að bjóðast þriðja sæti á lista í öðru kjör­dæminu.

Og það gæti vel skilað honum aftur á þing, því Sjálf­stæðis­flokkurinn náði þremur þing­mönnum inn í Reykja­vík norður í síðustu þing­kosningum en tveimur í Reykja­vík suður, þar sem Brynjar var á lista. Þriðja sætið er því tví­mæla­laust bar­áttu­sæti fyrir flokkinn.

Kominn með aðra vinnu

Þó Brynjar sé um­deildur og jafnan þekktur fyrir að tala tæpi­tungu­laust, þá oft um við­kvæm mál­efni, virðast pólitískir and­stæðingar hans oft taka honum af nokkurri létt­úð. Það skýrist kannski af því að oft er stutt í húmorinn hjá Brynjari.

Brynjar og Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, hafa gjarnan eldað grátt silfur saman í fjöl­miðlum en Helga virðist strax farin að sakna rifrildanna: „Ertu ekki samt til í að mæta reglu­lega og röfla við mig í Bítinu? Ég nenni ekkert að vakna svona snemma fyrir hvern sem er,“ skrifar hún við til­kynningu Brynjars.

En Brynjar efast um það. Stutt er í gamanið þó hann sé von­svikinn yfir úr­slitunum því þegar hann er spurður á þræðinum við færsluna hvort hann vanti nú ekki nýja vinnu heldur hann nú ekki: „Nei, er búinn að stofna Only Fans síðu,“ segir hann og vekur at­huga­semdin mikla lukku meðal vina hans á Face­book.

Úr dóms­mála­ráðu­neytinu og út af þingi

Ein­hverjir hafa viljað túlka niður­stöðu próf­kjörsins sem hálf­gerða höfnun Sjálf­stæðis­manna í borginni á þeim væng flokksins sem má segja að sé lengst til hægri eða í­halds­samastur. Sig­ríður Á. Ander­sen galt til að mynda af­hroð í próf­kjörinu. Hún sóttist eftir öðru sætinu eins og Brynjar en endaði ekki meðal efstu átta.

Sjá einnig: „Ég er alveg af­slöppuð með þessa niður­­­stöðu“.

Hún er því á leið af þingi eins og Brynjar en hún leiddi lista flokksins í Reykja­vík suður í síðustu kosningum og hóf kjör­tíma­bilið sem dóms­mála­ráð­herra áður en hún sagði af sér embætti eftir Lands­réttar­málið. Brynjar og Sig­ríður hafa haldið úti há­værri gagn­rýni á sótt­varna­að­gerðir ríkis­stjórnarinnar og bein­línis lýst sig andsnúin mörgu sem flokkur þeirra hefur látið við­gangast í ríkis­stjórnar­sam­starfinu.

Sigríður Á. Andersen sagði af sér embætti dómsmálaráðherra fyrr á kjörtímabilinu.vísir/vilhelm

Guð­laugur Þór sagði við Vísi í dag að einnig yrði mikill söknuður að Sig­ríði af þingi. „Þú þarft ekkert að vera sam­mála henni í öllu en það getur enginn haldið öðru fram en að þar fari mjög skel­eggur og öflugur stjórn­mála­maður,“ sagði hann.

Spurður hvort honum þætti listinn endur­spegla á­kall flokks­manna um ný­liðun sagði Guð­laugur efstu sæti listans vera góða blöndu af ný­liðum og reynslu. Að­stoðar­maður hans Diljá Mist Einars­dóttir hafnaði í þriðja sæti í próf­kjörinu og Hildur Sverris­dóttir, að­stoðar­maður ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, í því fjórða. Þær taka því báðar annað sæti á listum flokksins í Reykja­vík.

Sjá einnig: Telur úrslitin ákall um nýliðun í bland við reynslu.

Flokkurinn verður því með þrjár ungar konur í fjórum efstu sætum sínum í Reykja­­vík, því Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra, sem hafnaði í öðru sæti í próf­kjörinu, mun leiða annan listann.


Tengdar fréttir

Baráttan bara rétt að byrja

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem sigraði í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, er gríðaránægður með niðurstöðuna. Hann segir kosningu Diljár Mistar Einarsdóttur aðstoðarmanns síns eftirtektarverða - og þá sé spenna milli framboðs hans og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að baki.

„Geri enga kröfu um sæti á framboðslista flokksins“

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, ætlar að tjá kjörnefnd að hún geri ekki kröfu um sæti á lista flokksins fyrir Alþingiskosningarnar. Hún ætlar þó ekki að hætta stjórnmálaþátttöku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×