Erlent

Banna hvítrússneskar þotur í Evrópu

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvítrússneska ríkisflugfélaginu Belavia er ekki vært í Evrópu með nýjum refsiaðgerðum Evrópusambandsins.
Hvítrússneska ríkisflugfélaginu Belavia er ekki vært í Evrópu með nýjum refsiaðgerðum Evrópusambandsins. Vísir/EPA

Evrópusambandið hefur ákveðið að banna hvítrússneskum flugvélum að fljúga í lofthelgi aðildarríkja sinna og að lenda á evrópskum flugvöllum. Evrópsk flugfélög eru áfram hvött til þess að forðast í lengstu lög að fljúga í gegnum lofthelgi Hvíta-Rússlands.

Ríkisstjórn Alexanders Lúkasjenka, forseta Hvíta-Rússlands sem gjarnan er nefndur síðasti einræðisherrann í Evrópu, þvingaði farþegaþotu Ryanair til að lenda í Minsk, að því er virðist á fölskum forsendum, fyrir um tveimur vikum. Vélin var á leiðinni frá Grikklandi til Litháen en um borð var Roman Protasevtis, hvítrússneskur blaða- og andófsmaður.

Hvítrússneskar öryggissveitir leiddu Protasevits og Sofiu Sapega, kærustu hans, út úr flugvélinni og handtóku þau. Síðan þá hafa þau verið í haldi yfirvalda í heimalandinu sem hafa birt myndbönd af þeim þar sem þau játa á sig glæpi. Virðist parið hafa verið þvingað til játninganna.

Evrópskir ráðamenn fordæmdu aðfarir hvítrússneskra yfirvalda og hvöttu flugfélög til að sneiða fram hjá landinu. Þá beitti ESB hvítrússneska embættismenn refsiaðgerðum.

Nýju aðgerðirnar sem meina hvítrússneskum flugvélum um aðgang að evrópskri lofthelgi tóku gildi á miðnætti að miðevrópskum tíma í nótt. Með þeim þurfa aðildarríki ESB að neita hvítrússneskum flugvélum um leyfi til lendinga, flugtaks og að fljúga inn í flughelgi sína, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Bannið hefur væntanlega mikil áhrif á hvítrússneska ríkisflugfélagið Belavia sem flýgur til tuttugu flugvalla í Evrópu.


Tengdar fréttir

Hrósaði Lúkasjenka fyrir „stálhreðjar“ hans

Ríkissjónvarp Hvíta-Rússlands birti í dag viðtal við blaðamanninn og aðgerðasinnann Roman Protasevíts, sem var handtekinn þegar áhöfn farþegaþotu RyanAir var þvinguð til að lenda flugvélinni í Minsk í síðasta mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×