Erlent

Minningar­at­hafnir um mót­mælin á Torgi hins himneska friðar bannaðar annað árið í röð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan í Hong Kong stöðvaði fólk sem reyndi að fara inn í Viktoríugarð til þess að minnast mótmælanna á Torgi hins himneska friðar.
Lögreglan í Hong Kong stöðvaði fólk sem reyndi að fara inn í Viktoríugarð til þess að minnast mótmælanna á Torgi hins himneska friðar. Getty/Anthony Kwan

Yfirvöld í Hong Kong hafa bannað minningarathafnir um mótmælin á Torgi hins himneska friðar annað árið í röð. Íbúar í Hong Kong hafa ár hvert minnst blóðbaðsins á torginu en fjöldasamkomur voru bannaðar í fyrra sökum kórónuveirufaraldursins. Það sama er uppi á teningunum í ár.

Eins og staðan er í dag eru Hong Kong og Makaó einu svæðin á kínversku yfirráðasvæði þar sem heimilt er að halda minningarathöfn um mótmælin árið 1989. Mótmælin voru kæfð niður eftir að Li Peng, forseti alþýðulýðveldisins lýsti yfir herlögum. Talið er að allt að mörg þúsund stúdentar hafi látist í mótmælunum en sú tala hefur aldrei verið staðfest.

Á meginlandi Kína hafa yfirvöld bannað jafnvel hinar minnstu tilvitnanir í atburðinn þann 4. júní 1989 en mótmælin höfðu staðið yfir í margar vikur áður en þau voru stöðvuð með miklum blóðsúthellingum.

Viktoríugarði var lokað af lögreglunni í dag en minningarathöfn um atburðina er haldin þar árlega. Lögreglan vísaði þá hópum fólks, sem ætlaði inn í garðinn og var búið að kveikja á kertum, frá.

Auk þess að vera annað árið sem minningarathafnir um atburðinn eru stöðvaðar er þetta fyrsta árið sem afmæli atburðarins ber að garði og umdeild öryggislög eru í gildi í Hong Kong. Lögunum, sem miða að því að stöðva lýðræðishreyfingu Hong Kong, var komið á fyrir tilstilli yfirvalda í Peking.

Vegna þessara nýju laga var aðgerðasinninn Chow Hang Tung, sem hefur skipulagt minningarathöfnina um atburðina á Torginu í nokkur ár, handtekinn í dag. Vegna laganna er jafnframt talið að færri hafi þorað að minnast atburðanna, en lögin gera lögreglu kleift að handtaka hvern þann sem gerir eitthvað sem hægt er að túlka sem andstöðu við yfirvöld í Peking.

Aðgerðasinnar hvöttu fólk í dag til þess að kveikja á kertum, ljósum heima hjá sér og jafnvel sígarettum klukkan 20 að staðartíma til þess að minnast atburðanna en lögregla varaði fólk við því og minnti íbúa á að þeir þyrftu að fylgja lögum, annars ættu þeir yfir höfði sér handtöku.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.