Erlent

Enskur táningur dæmdur fyrir að hafa ráðist á ís­lenska ferða­menn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mennirnir voru á leið heim af skemmtistað þegar hópurinn réðst á þá.
Mennirnir voru á leið heim af skemmtistað þegar hópurinn réðst á þá. Getty/Mahaux Charles

Enskur táningur var dæmdur á föstudag í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á tvo íslenska karlmenn í Brighton á Englandi. Dómari í málinu sagði að árásin væri þess eðlis að hann ætti að sitja í fangelsi en erfið fortíð piltsins hafi haft áhrif á ákvörðun hans um refsingu.

Geir Gunnarsson og Friðgeir Gíslason voru staddir í fríi í Brighton á Englandi í október 2019 þegar hópur unglinga réðst á þá. Lewis Kelly, átján ára, var þeirra á meðal og er hann sá sem dæmdur var vegna málsins. Þetta kemur fram í frétt Brighton & Hove News.

Mennirnir tveir voru á heimleið eftir að hafa verið úti á lífinu með vinum sínum. Þeir voru á leið upp á hótelherbergi þegar fjögurra til sex manna hópur réðst á þá.

Geir og Friðgeir urðu báðir illa úti í árásinni, þeir voru barðir og táragasi úðað framan í þá. Annar þeirra var alvarlega slasaður og brotnaði í honum augntóft.

Kelly var aðeins sautján ára gamall þegar atvikin áttu sér stað og viðurkenndi hann fyrir rétti að hafa ráðist á mennina. Hann viðurkenndi einnig að hafa átt táragas en sagðist þó ekki sá sem hafi úðað því framan í tvímenningana.

Christine Henson, dómari í málinu, sagði við dómsuppkvaðningu á föstudag að árásin hafi verið alvarleg og undir venjulegum kringumstæðum væri refsingin fangelsisvist. Kelly hafi hins vegar átt erfitt uppdráttar og hafi hvorki komið sér í vandræði fyrir eða eftir atvikið. Því skyldi hann sæta skilorðsbundnu fangelsi.

Auk þess mun Kelly þurfa að gangast undir 25 daga endurhæfingu. Hvorugur íslensku mannanna mun fá greiddar bætur þar sem Kelly er á bótum og á 7 mánaða gamlan son sem hann þarf að sjá fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×