Innlent

Dusterinn er kominn aftur á kreik

Snorri Másson skrifar
Dacia Duster er vinsæll bíll hjá bílaleigum á Íslandi.
Dacia Duster er vinsæll bíll hjá bílaleigum á Íslandi. Unsplash/Jesse Huisman

Þeir sem fara akandi um stræti Reykjavíkur nú um mundir fara fæstir varhluta af kunnuglegri þróun sem orðið hefur í borginni á allra síðustu vikum. Dacia Duster, uppáhaldsbílaleigubíll ferðamannsins, er aftur kominn á kreik.

Samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru Dusterar og aðrir bílaleigubílar í umferðinni orðnir merkjanlega fleiri. Enn er þó ekki að sjá að árekstrum hafi fjölgað sem nemur.

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeildinni, segir að engan skuli undra að þróunin sé þessi þegar sneisafullar flugvélar af ferðamönnum lenda hér dag hvern. Hann telur ferðamennina þó ekki verri ökumenn en Íslendinga.

„Þeir eru yfirleitt varfærnir af því að þeir eru ókunnugir aðstæðum en þeir lenda stundum í klaufalegum mistökum.

Stórt hlutfall af þessum hópi tel ég að sé fólk sem á ekki bíl í sínu heimalandi vegna almenningssamganga í stórborgum þar. Þau eru þar af leiðandi ekki vanir ökumenn og enn síður í íslenskum aðstæðum,“ segir Guðbrandur.

Ferðamönnum stórfjölgar

Samkvæmt athugunum Vegagerðarinnar eru Kínverjar, Ítalir og Spánverjar langlíklegastir til að verða sér að voða í umferðinni hér á landi og eru þessar þjóðir raunar margfalt líklegri en margar aðrar.

Samgöngustofa hefur lagt mikið upp úr því að búa til kennsluefni fyrir ferðamenn sem er dreift til þeirra í samstarfi við björgunarsveitir og bílaleigur. Þar hefur að sögn Guðbrands verið unnið gríðarlegt forvarnarstarf á umliðnum árum.

Sautján flugvélar áforma að lenda á Keflavíkurflugvelli á morgun og ferðamenn hafa ekki streymt í eins stríðum straumum inn í landið síðan löngu fyrir heimsfaraldur. Um leið er slakað á skyldu til dvalar á sóttkvíarhótelum fyrir stóran hóp frá og með 1. júní.


Tengdar fréttir

„Túristinn er mættur“

Langar raðir hafa myndast við heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu við Suðurlandsbraut í sýnatökur undanfarna daga. Þrátt fyrir að þónokkur smit hafi greinst utan sóttkvíar undanfarna daga er fjöldinn ekki vegna þeirra smita, heldur endurkomu ferðamanna hingað til lands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×