Innlent

„Túristinn er mættur“

Sylvía Hall skrifar
Framkvæmdastjóri hjúkrunar segir fyrirséð að langar raðir geti myndast á Suðurlandsbraut.
Framkvæmdastjóri hjúkrunar segir fyrirséð að langar raðir geti myndast á Suðurlandsbraut. Vísir/Vilhelm

Langar raðir hafa myndast við heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu við Suðurlandsbraut í sýnatökur undanfarna daga. Þrátt fyrir að þónokkur smit hafi greinst utan sóttkvíar undanfarna daga er fjöldinn ekki vegna þeirra smita, heldur endurkomu ferðamanna hingað til lands.

„Þetta er líka ferðafólkið. Því er að fjölga svo núna og við erum að reyna að bæta í, mikið af þeim sem eru að koma í fimm daga sýni. Það er eiginlega meira svoleiðis en að þetta séu einkennasýni,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hún segir álagið hafa aukist til muna á Keflavíkurflugvelli undanfarið og því búið að breyta og bæta þjónustuna í skimun þar. Aðstaðan hefur verið flutt út í gáma og yfirferð vottorða er framkvæmd með skilvirkum hætti.

„Við erum að bæta verulega í því við erum líka í vottorðaskoðuninni; PCR-vottorð, bólusetningarvottorð og mótefnavottorð. Það er búið að setja upp skoðanaborð í komusalnum í Keflavík. Þetta er heljarinnar prógram í gangi til að mæta auknum ferðamannafjölda,“ segir Ragnheiður.

„Það er allt að fara í gang því við ætlum að taka sýni úr öllum og halda þessu fyrirkomulagi áfram eitthvað næstu vikurnar. Veit ekki alveg hversu lengi - Þórólfur ákveður það.“

Suðurlandsbrautin þurfi að taka við þeim sem komi í fimm daga sýnatöku og fyrirséð að það verði umfangsmikið verkefni með tilheyrandi fjölda, enda ferðafólk farið að koma í auknum mæli hingað til lands.

„Túristinn er mættur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×