Innlent

Há­­marks­­hraði raf­­hlaupa­hjóla gæti lækkað á vissum svæðum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Enginn mun bruna niður Laugaveginn á rafhlaupahjóli ef tillögur hópsins ná fram að ganga.
Enginn mun bruna niður Laugaveginn á rafhlaupahjóli ef tillögur hópsins ná fram að ganga. vísir/vilhelm

Höfundum skýrslunnar Rafs­kútur og um­ferðar­öryggi sem gerð var fyrir Vega­gerðina og Reykja­víkur­borg telja æski­legt að há­marks­hraði raf­hlaupa­hjóla verði lækkaður á á­kveðnum svæðum í borginni. Þeim þykir þá vel koma til greina að leyfa um­ferð hlaupa­hjólanna á götum þar sem há­marks­hraðinn er 30 kíló­metrar á klukku­stund.

Hingað til hefur öll um­ferð raf­hlaupa­hjóla á ak­brautum verið bönnuð og að­eins verið leyfilegt að aka þeim á gang­stéttum og hjóla­reinum. Víða er­lendis þar sem ekki er mikið um hjóla­stíga er um­ferð þeirra á götum þó leyfð.

Skýrslu­höfundunum finnst koma vel til greina að borgin leyfi um­ferð hjólanna á götum þar sem há­marks­hraðinn er 30 eða lægri.

Stafrænar girðingar 

Þá finnst þeim að nota ætti svo­kallaða staf­ræna girðingu til að lækka hraða raf­hlaupa­hjóla á gang­stéttum verslunar­gatna, þar sem margir gangandi veg­far­endur eru á ferli. Eins og er mega þau ekki komast hraðar en 25 kíló­metra á klukku­stund. Skýrslu­höfundarnir benda til dæmis á þá leið sem farin er í Kaupmannahöfn en þar er há­marks­hraði hlaupa­hjólanna ekki nema 6 kíló­metrar á klukku­stund á göngu­götum.

Staf­rænar girðingar eru þegar notaðar af hjóla­leigunum með hjálp GPS-tækni til dæmis til að marka svæði þar sem bannað er að leggja hjólunum. Tæknin greinir þá ef hjólið er innan svæðis sem bannað er að leggja á og hindrar þann sem er á hjólinu í að gera það. Staf­rænar girðingar hafa þó ekki verið notaðar til að hefta hraða hjólanna en mögu­leiki er á að það verði gert á næstunni.

13 ára aldurstakmark

Raf­hlaupa­hjólin hafa notið gríðar­lega vin­sælda í borginni síðustu ár. Hjólum í einka­eigu hefur fjölgað mikið og sam­kvæmt skýrslunni má nú finna raf­hlaupa­hjól á rúm­lega tíunda hverju heimili í Reykja­vík, eða 12 prósent heimila. 44 prósent lands­manna segjast þá hafa prófað raf­hlaupa­hjól.

Aukinni notkun fylgja þó fleiri slys en sumarið 2020 leituðu 149 sér að­hlynningar á bráða­mót­töku Land­spítalans eftir slys á raf­hlaupa­hjóli. Stóran hluta slysanna mátti rekja til ofsa­aksturs og aksturs undir á­hrifum. 45 prósent þeirra sem leituðu á bráða­mót­töku voru undir 18 ára aldri.

Ekkert aldurs­tak­mark er á notkun raf­hlaupa­hjóla á Ís­landi eins og er en hópurinn vill láta skoða hvort á­stæða sé til að setja lág­marks­aldur á notkun þeirra, til dæmis í 13 ára sem er sami aldur og fyrir létt bif­hjól.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.