Erlent

Viður­kenna á­byrgð á þjóðar­morði í Namibíu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá minningarathöfn um fórnarlömb þjóðarmorðanna í Namibíu á nýlendutíma Þjóðverja sem fram fór í Berlín árið 2011.
Frá minningarathöfn um fórnarlömb þjóðarmorðanna í Namibíu á nýlendutíma Þjóðverja sem fram fór í Berlín árið 2011. AP

Þýsk stjórnvöld hafa í fyrsta skipti viðurkennt formlega að hafa borið ábyrgð á þjóðarmorði í Namibíu á nýlendutíma sínum. Þjóðverjar hafa sömuleiðis samþykkt að greiða Namibíumönnum fjárhagslegar bætur vegna málsins.

Þýski utanríkisráðherrann Heiko Maas sagðist í morgun viðurkenna drápin sem þjóðarmorð. „Í ljósi sögulegrar og siðferðislegrar ábyrgðar Þýskalands, munum við óska eftir fyrirgefningu Namibíu og afkomendum fórnarlambanna,“ sagði Maas, að því er fram kemur í frétt BBC

Þýskir nýlendumenn stráfelldu tugi þúsunda af þjóðflokkum Herero- og Namamanna í Namibíu á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar.

Maas sagði að þýsk stjórnvöld myndu styðja við þróun Namibíu með stuðningsáætlun til næstu þrjátíu ára. Um 1,1 milljörðum evra, um 162 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag, verður varið í áætlunina sem ætlað er til stuðnings uppbyggingu innviða, heilbrigðismála og fleira.

BBC segir frá því að leiðtogar sumra þjóðarbrota í Namibíu hafi neitað að lýsa yfir stuðningi við samkomulagið við Þjóðverja.

Þýski utanríkisráðherrann Heiko Maas.AP

Drápin hófust 1904

Viðræður Þjóðverja og Namibíumanna um málið hafa staðið síðustu fimm árin, en nýlendutími Þýskalands í Namibíu stóð frá 1884 til 1915. Fjöldamorðin hófust árið 1904 eftir uppreisn Herero og Namafólks í kjölfar landtöku Þjóðverja, en margir hafa lýst morðum Þjóðverja í Namibíu sem „hinu gleymda þjóðarmorði“.

Ekki eru til neinar opinberar tölur um fjölda þeirra sem létu lífið, en ljóst þykir að um hafi verið að ræða tugi þúsunda sem leiddi til gríðarlegrar fækkunar Herero og Namafólks.

Þýskir fjölmiðlar greina frá því í dag að búist sé við að sérstök yfirlýsing verði undirrituð af þýska utanríkisráðherranum í namibísku höfuðborginni Windhoek í næstu viku og hún tekin til meðferðar og svo staðfest af þjóðþingum ríkjanna að því loknu.

Þá er reiknað með að Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, haldi til Namibíu til að biðjast opinberlega afsökunar á málinu fyrir hönd þýsku þjóðarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.