Innlent

Við­snúningur í Hæsta­rétti vegna upp­greiðslu­þóknunar Í­búða­lána­sjóðs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málinu var áfrýjað beint til Hæstaréttar en ekki Landsréttar eins og hefð er fyrir.
Málinu var áfrýjað beint til Hæstaréttar en ekki Landsréttar eins og hefð er fyrir. Vísir/Hanna

Hæstiréttur sýknaði í dag Íbúðalánasjóð í einu máli er varðaði uppgreiðsluþóknun sjóðsins og ómerkti dóm í öðru og vísaði til meðferðar í héraði á nýjan leik. Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að uppgreiðsluþóknun Íbúðalánasjóðs hefði verið ólögmæt.

Um var að ræða mál tveggja hjóna sem tóku fjörutíu ára lán hjá Íbúðalánasjóði árið 2008. Var sjóðurinn sýknaður máli annarra hjónanna en dómurinn í máli hinna ómerktur þar sem Hæstiréttur taldi héraðsdóm hafa byggt niðurstöðu sína á málsaðstæðum sem hefðu mátt koma fram við meðferð málsins en gerðu ekki.

Málin varða mikla hagsmuni fyrir lántakendur sjóðsins, en árið 2018 höfðu hátt í fjórtán þúsund manns tekið húsnæðislán með skilmálum um uppgreiðslugjöld frá árinu 2005.

Hjónin Erla Stefánsdóttir og Finnbjörn Börkur Ólafsson fögnuðu sigrinum í héraði í desember þó með þeim fyrirvara að málinu væri ekki lokið. 

Íslensk stjórnvöld ákváðu að áfrýja dómunum í héraði beint til Hæstaréttar í ljósi þeirra verulegu hagsmuna sem undir væru.

„Það sem við ætl­um að gera í þessu máli er að við ætl­um að reyna að fara eins skjóta leið og hægt er í gegn­um dóms­kerfið og við mun­um láta reyna á sér­staka heim­ild í lög­un­um til þess að óska eft­ir beinni meðferð fyr­ir Hæsta­rétti, fram hjá Lands­rétti, til þess að málsmeðferðar­tím­inn verði sem allra styst­ur,“ seg­ir Bjarni Benediktsson í ræðu á Alþingi þann 10. desember vegna málsins.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í kjölfar dómanna í héraði kom fram að innheimtir hefðu verið 5,2 milljarðar króna í sambærilegum upp­greiðslu­þókn­un­um. Ó­gjald­fall­in upp­greiðslu­gjöld virkra lána væru um þrír milljarðar króna. Tilgangur gjaldanna væri að mæta kostnaði sjóðsins af upp­greiðslu lána. 

Lántakendur með uppgreiðslugjald eru um 8500 talsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Áfrýjar dómi sem gæti kostað ríkið milljarða

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að áfrýja dómi í máli hjóna sem höfðu betur í dómsmáli gegn Íbúðarlánasjóði. Ríkið segir að þetta sé gert í ljósi þeirra verulegu hagsmuna sem undir séu.

„Í dag er fallinn tímamótadómur“

Ríkissjóður gæti þurft að greiða lántakendum hjá Íbúðalánasjóði (nú ÍL-sjóðs) á annan tug milljarða eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi uppgreiðsluþóknun sjóðsins ólögmæta í dag. Lögmaður segir þetta tímamótadóm og mikinn sigur fyrir lántakendur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.