Enski boltinn

Skrifar undir fimm ára samning við Liverpool eftir EM 21 árs landsliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ibrahima Konate mun njóta góðs af því að spila með og læra af Virgil Van Dijk.
Ibrahima Konate mun njóta góðs af því að spila með og læra af Virgil Van Dijk. EPA-EFE/Alexander Hassenstein

Eftir slæmt ástand í miðri vörn Liverpool á tímabilinu horfir nú til bjartari tíma. Mögulegur framtíðarmiðvörður franska landsliðsins spilar við hlið Virgil Van Dijk á næstu leiktíð.

Liverpool hefur gengið frá kaupunum á miðverðinum Ibrahima Konate frá RB Leipzig en ESPN er meðal erlendu miðlana sem segja frá þessu.

Þetta hefur legið lengi í loftinu en Liverpool gat endanlega gengið frá þessu eftir að félagið tryggði sér sæti í Meistaradeildinni um síðustu helgi.

Liverpool gat því virkjað klásúlu í samningi Ibrahima Konate við þýska félagið og getur keypt upp samninginn á 41,5 milljónir evra. Liverpool þarf samt að borga alla upphæðina strax.

Konate er franskur unglingalandsliðsmaður sem hélt upp á 22 ára afmælið sitt í þessari viku. Njósnarar Liverpool hafa fylgst með honum lengi en þetta er mjög hæfileikaríkur leikmaður sem framtíðina fyrir sér.

Konate hefur þegar gengið undir læknisskoðun og mun skrifa undir fimm ára samning við Liverpool liðið eftir Evrópumót 21 árs landsliða. Frakkar komust í átta liða úrslitin upp úr riðli Íslands og mæta þar Hollendingum.

Ibrahima Konate er stór og sterkur leikmaður með mikinn hraða. Hann hefur bætt sig mikið með boltann og tekið miklum framförum í leikfræðinni undir stjórn Julian Nagelsmann hjá Leipzig. Jürgen Klopp er mikill aðdáandi og vill spila honum við hlið Virgil van Dijk á næstu leiktíð.

Koma Konate þýðir að það verður ekki pláss fyrir Ozan Kabak hjá félaginu. Liverpool mun ekki nýta sér kauprétt sinn en Kabak var í láni frá Schalke. Það er hins vegar líklegt að Kabak endi hjá Leipzig sem er að missa báða miðverði sína, Konate til Liverpool og Dayot Upamecano til Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×