Erlent

Síðasti liðs­maður al­þjóða­her­deildarinnar allur

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður heldur á fána alþjóðaherdeildarinnar úr spænska borgarastríðinu við minningarathöfn um frelsun útrýmingabúðanna í Buchenwald árið 2019.
Maður heldur á fána alþjóðaherdeildarinnar úr spænska borgarastríðinu við minningarathöfn um frelsun útrýmingabúðanna í Buchenwald árið 2019. Vísir/EPA

Síðasti eftirlifandi sjálfboðaliðinn í svonefndri alþjóðaherdeild lýðveldissinna í borgarastríðinu á Spáni er látinn, 101 árs að aldri. Nokkrir Íslendingar tóku upp málstað lýðveldissinnanna gegn fasistaher Francisco Franco, herforingja.

Josep Almudever Mateu fæddist í Marseille og hafði bæði franskt og spænskt ríkisfang. Hann var sautján ára gamall þegar hann gekk til liðs við lýðveldisherinn árið 1936. Særðist hann í orrustu í Teruel í Aragón-héraði. Gekk Mateu þá til liðs við alþjóðaherdeildina, sveit sjálfsboðaliða útlendinga sem vildu berjast gegn fasisma.

Þegar lýðveldissinnar töpuðu stríðinu árið 1939 var Mateu tekinn höndum og dúsaði hann í fangabúðum og fangelsum. Barðist hann gegn fasistum á Spáni frá 1944 til 1947 en fór síðan í útlegð í Frakklandi.

Spænsk vinasamtök alþjóðaherdeildarinnar staðfesta að Matue hafi látist á sunnudag en hann var síðasti liðsmaður hennar sem enn lifði, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Áætlað er að um 35.000 manns frá 53 löndum hafi gengið til liðs við alþjóðaherdeildina eftir að borgarastríðið braust út í október árið 1936. Um tíu þúsund þeirra féllu. Breski rithöfundurinn George Orwell var einn þeirra sem buðu sig fram og skrifaði hann meðal annars bókina „Virðingarvottur við Katalóníu“ um reynslu sína af stríðinu og heiftúðuga valdabaráttu ólíkra fylkinga lýðveldissinna.

Að minnsta kosti þrír Íslendingar tóku þátt í borgarastríðinu á Spáni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×