Fótbolti

Wijnaldum til Barcelona með blessun Messis

Sindri Sverrisson skrifar
Georginio Wijnaldum var kvaddur á Anfield um helgina og leystur út með gjöfum, eftir að liðið tryggði sér 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Georginio Wijnaldum var kvaddur á Anfield um helgina og leystur út með gjöfum, eftir að liðið tryggði sér 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Getty/Andrew Powell

Hollenski landsliðsmaðurinn Georginio Wijnaldum mun gera samning við Barcelona sem gildir til sumarsins 2024. Hann fer frítt til félagsins frá Liverpool þar sem samningur hans er að renna út.

Þetta segir íþróttafréttamaðurinn virti Fabrizio Romano á Twitter. Hann tekur fram að ekkert samkomulag hafi náðst við Bayern München enda hafi Wijnaldum viljað fara til Barcelona frekar. Aðeins eigi eftir að ganga frá smáatriðum varðandi samning hans við Barcelona.

Romano vísar einnig til íþróttafréttamannsins Matteo Moretto sem sagði frá yfirvofandi vistaskiptum Wijnaldum, og að þeir Ronald Koeman og Lionel Messi hefðu báðir lagt blessun sína yfir komu miðjumannsins öfluga. Núgildandi samningur Messis við Barcelona rennur reyndar út í sumar og því ríkir óvissa um framtíð hans hjá félaginu.

Wijnaldum, sem er þrítugur, hefur verið hjá Liverpool frá árinu 2016 en lék áður með Newcastle, PSV og Feyenoord. Hann er á leið á Evrópumótið með hollenska landsliðinu sem leika mun á heimavelli í Amsterdam, í C-riðli.

Í kveðjufærslu til Liverpool á Instagram-síðu sinni kvaðst Wijnaldum ánægður að geta kvatt félagið í Meistaradeildarsæti en Liverpool endaði í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Verðlaunin sem við unnum, stuðningsmenn að syngja nafnið mitt, ég mun aldrei gleyma þeim frábæru áföngum sem við náðum með þessu stórkostlega félagi. Við deildum saman ógleymanlegum stundum og enginn getur tekið þær af okkur,“ skrifaði Wijnaldum.

„Ég hefði ólmur viljað áfram spila fyrir Liverpool í mörg ár til viðbótar en því miður fóru hlutirnir á annan veg. Ég þarf að hefja nýtt ævintýri,“ skrifaði Wijnaldum en tók fram að hann væri samningsbundinn Liverpool til 1. júlí og að allt gæti gerst í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×