Erlent

Sögðust hafa fundið metamfetamín í ösku dóttur hans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglumennirnir eru sagðir hafa hellt niður hluta af öskunni þegar þeir prófuðu hana fyrir fíkniefnum.
Lögreglumennirnir eru sagðir hafa hellt niður hluta af öskunni þegar þeir prófuðu hana fyrir fíkniefnum.

Bandarískur maður hefur höfðað mál á hendur lögreglunni í borginni Springfield í Illinois fyrir að hafa lagt hald á ösku tveggja ára dóttur hans og sagt hana hafa innihaldið metamfetamín.

Dartavius Barnes var stöðvaður og handtekinn vegna umferðarlagabrots 6. apríl í fyrra. Upptökur úr búkmyndavélum lögreglu sýna samstarfsfúsan Barnes játa því að vera með marjúana en í bifreiðinni fundust um 80 grömm.

Eftir leit sýna lögreglumennirnir Barnes lítið ílát á stærð við fingur og segjast hafa fundið metamfetamín í því.

„Nei, nei, nei.. þetta er dóttir mín,“ segir Barnes, þá kominn í talsvert uppnám. „Láttu mig fá þetta. Þetta er dóttir mín. Gerðu það láttu mig fá dóttur mína. Láttu hana í hendurnar á mér. Þetta er vanvirðing, maður.“

Ta'Naja, dóttir Barnes, lést í febrúar 2019 sökum vanrækslu og vannæringar. Móðir hennar var dæmd í 20 ára fangelsi eftir að hafa játað að hafa orðið barninu að bana.

Eftir að hafa ráðið ráðum sínum afhentu lögreglumennirnir Barnes ílátið. Hann var hins vegar handtekinn og ákærður fyrir vörslu fíkniefna.

Barnes fer fram á skaðabætur en málið verður ekki tekið fyrir fyrr en í ágúst 2022.

Samkvæmt Washington Post eru skyndipróf sem lögregla notar til að bera kennsl á fíkniefni afar óáreiðanleg. Þau hafa meðal annars skilað fölskum jákvæðum niðurstöðum eftir próf á smákökum, hveiti og olíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×