Erlent

Telur að Prota­sevich gæti verið pyntaður í Hvíta-Rúss­landi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Protasevich var handtekinn í gær, en myndin er frá mótmælum í Minsk árið 2017.
Protasevich var handtekinn í gær, en myndin er frá mótmælum í Minsk árið 2017. AP/Sergei Grits

Fjölskylda hvítrússneska blaðamannsins Romans Protasevich óttast að hann kunni að vera pyntaður af stjórnvöldum í heimalandinu eftir að flugvél sem hann var farþegi í var þvinguð til lendingar í Hvíta-Rússlandi og hann tekinn höndum.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Dmitri Protasevich, föður Romans, að hann hefði miklar áhyggjur af þeirri meðferð sem sonur hans fengi nú þegar hann er í haldi yfirvalda í Hvíta-Rússlandi.

„Við vonum að hann muni þola þetta. Við verðum hrædd bara við að hugsa um þetta, en það er mögulegt að hann hafi verið barinn og pyntaður. Við erum hrædd um það,“ sagði Dmitri.

Fjölskylda Romans væri í miklu áfalli vegna málsins. Flugvélin sem Protasevich var farþegi í var á leið frá Aþenu í Grikklandi til Vilníus í Litháen en var látin lenda í Hvíta-Rússlandi þegar hún kom inn í lofthelgi landsins. Protasevich var í kjölfarið handtekinn.

„Þetta er eitthvað sem á ekki að vera að gerast í miðri Evrópu á 21. öldinni. Við vonum að allt alþjóðasamfélagið, þar á meðal Evrópusambandið, setji fordæmalausan þrýsting á yfirvöld. Við vonum að sá þrýstingur beri árangur og yfirvöld átti sig á því að þau hafi gert afar stór mistök,“ hefur BBC eftir föðurnum.

Birtu myndband af blaðamanninum

Í dag birtu hvítrússnesk stjórnvöld myndband af Protasevich þar sem hann kvaðst vera við góða heilsu og virtist játa þau brot sem honum eru gefin að sök í Hvíta-Rússlandi. Þau brot fela í sér að hafa skipulagt mótmæli gegn Alexander Lúkasjenkó, forseta landsins.

Aðgerðasinnar í Hvíta-Rússlandi segja játningu Protasevich ekki ósvikna, þar sem hann hafi einfaldlega verið látinn játa.

Evrópusambandið hefur í kjölfar málsins ákveðið að beita Hvíta-Rússland auknum viðskiptaþvingunum og hvatti flugfélög til þess að fljúga ekki inn í hvítrússneska lofthelgi. Þá hefur hvítrússneskum flugvélum verið bannað að fljúga yfir lofthelgi aðildarríkja ESB.


Tengdar fréttir

Litháískum borgurum sagt að forða sér frá Hvíta-Rússlandi

Stjórnvöld í Litháen hafa ráðlagt borgurum sínum að yfirgefa Hvíta-Rússland af öryggisástæðum eftir að farþegavél var þvinguð til að lenda í Minsk þar sem stjórnarandstæðingurinn Roman Protasevich var handtekinn.

Farþegaflugvél þvinguð til að lenda í Minsk

Roman Protasevich, blaðamaður og aktivisti frá Hvíta-Rússlandi er í haldi á flugvelli í Minsk eftir að flugvél sem hann var farþegi í var þvinguð til að lenda þar í dagAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.