Erlent

Farþegaflugvél þvinguð til að lenda í Minsk

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Roman Protasevich handtekinn í Hvíta-Rússlandi árið in 2017. 
Roman Protasevich handtekinn í Hvíta-Rússlandi árið in 2017.  Sergei Grits/AP

Roman Protasevich, blaðamaður og aktivisti frá Hvíta-Rússlandi er í haldi á flugvelli í Minsk eftir að flugvél sem hann var farþegi í var þvinguð til að lenda þar í dag

Þetta kemur fram á vef Guardian og Reuters. Roman Protasevich er blaðamaður, ljósmyndari, bloggari og aktivisti. Protasevich var eftirlýstur vegna mómæla sem hann skipulagði gegn forseta Hvíta-Rússlands á síðasta ári.

Stjórnarandstæðingar Alexanders Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands, hafa gagnrýnt atvikið sem þeir segja tilraun til að þagga niður í gagnrýnisröddum. Þeir segja að vélin hafi verið látin nauðlenda í þeim eina tilgangi að handtaka Protasevich. Þess er krafist að NATO og Evrópusambandið beiti sér í málinu. 

Framkvæmdastjóri Evrópusambandsins segir atburðinn óásættanlegan og krefst þess að farþegum verði hleypt aftur á loft.

Forsætisráðherra Litháen tekur í sama streng.

Farþegaflugvélin var á leið frá Aþenu til Litháen þegar vélin var látin lenda í Hvíta-Rússlandi líkt og sést á Flightradar. Samkvæmt Guardian var flugvélin látin nauðlenda þegar hún var komin inn í lofthelgi Hvíta-Rússlands.

Utanríkisráðherra Litháen upplýsir um farþega í tísti á síðu sinni á samfélagsmiðlinum Twitter og kallar eftir því að flugvélin fái að taka á loft á ný hið snarasta.

Sakar Lúkasjenkó um flugrán

Forsætisráðherra Póllands segir að um „flugrán“ sé að ræða og vill ræða refsiaðgerðir innan ESB strax á morgun.

Flugvélin hefur ekki enn tekið á loft.

Í frétt DW kemur fram að Belta news agency greini frá því að flugvélin hafi verið látin lenda vegna sprengjuhótunar. Engin sprengja hafi þó fundist í vélinni þegar hún var skoðuð við lendingu.

Fréttaritari Guardian birtir yfirlýsingu Ryanair á Twitter þar sem fram kemur að öryggi hafi verið ógnað um borð og því hafi verið tekin ákvörðun um að lenda vélinni á næsta flugvelli. Flugvélin hafi lent á flugvelli í Minsk og að vélin muni taka aftur á loft síðar í dag.

Fréttaritarinn bendir þó glögglega á í tísti sínu að flugvöllurinn í Vilníus, höfuðborg Litháens, hafi verið mun nær en flugvöllurinn í Minsk þegar vélinni var snúið við.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:15 með yfirlýsingu frá Ryanair.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×