Innlent

Á­kærðu krafin um tæp­lega 70 milljónir í bætur

Sylvía Hall skrifar
Þrír karlmenn og ein kona eru ákærð fyrir morðið í samverknaði.
Þrír karlmenn og ein kona eru ákærð fyrir morðið í samverknaði. Vísir/Vilhelm

Þau fjögur sem ákærð eru fyrir að hafa myrt Armando Beqirai í Rauðagerði laugardagskvöldið 13. febrúar síðastliðinn eru sameiginlega krafin um rúmlega 68 milljónir í bætur ásamt vöxtum. Þetta kemur fram í ákæru á hendur fjórmenningunum sem Vísir hefur undir höndum.

Þrír karlmenn og ein kona eru ákærð fyrir morðið í samverknaði, þau Angjelin Sterkaj, Claudia Sofia Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi. 

Angjelin hefur játað að hafa myrt Armando við heimili hans í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti laugardagskvöldið 13. febrúar. Armando var skotinn níu sinnum með 22 kalíbera skammbyssu sem búin var hljóðdeyfi.

Kærasta Angjelin, sem er frá Portúgal, er einnig ákærð. Eins og Kompás greindi frá fyrr í mánuðinum er hún grunuð um að hafa elt Armando kvöldið örlagaríka. Tveir karlmenn til viðbótar, báðir frá Albaníu, eru einnig ákærðir vegna málsins. Annar þeirra var vinur þess myrta en hinn var í bíl með Angjelin kvöldið sem Armando var myrtur.

Í ákærunni gerir Þóranna Helga Gunnarsdóttir, eiginkona Armando, miskabótakröfur fyrir sína hönd sem og fyrir hönd sonar síns og ófædds barns þeirra Armando. Hvert um sig krefst fimm milljóna í miskabætur og greiðslu útfararkostnaðar. Þá er einnig farið fram á bætur fyrir missi framfæranda, en samanlagt hljóða þær upp á 43 milljónir króna.

Foreldrar Armando krefjast einnig fimm milljóna í miskabætur hvort um sig.

Farið er fram á greiðslu málskostnaðar af hálfu allra þeirra sem gera kröfur í málinu.

Málið var sent til héraðssaksóknara þann 3. maí síðastliðinn og höfðu þá fjórtán manns stöðu sakbornings. Ekki er ljóst hvað héraðssaksóknari hyggst hafast að hvað tíu af þeim fjórtán varðar. Málið er höfðað fyrri Héraðsdómi Reykjavíkur af hálfu héraðssaksóknara.

Hér að neðan má sjá viðtal við Þórönnu Helgu, eiginkonu Armando, úr Kompás fyrr í mánuðinum:


Tengdar fréttir

„Þetta var bara aftaka“

Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armando Beqirai, telur yfirvöld hafa brugðist. Hún er gagnrýnin á að lögregla hafi haft upplýsingar um að sá sem gengist hefur við morðinu hafi verið vopnaður skammbyssu þremur vikum áður og verið á Íslandi þrátt fyrir að vera eftirlýstur í heimalandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×