Innlent

Óttast að lenda undir gegn þaul­­skipu­lögðum glæpa­hópum

Aukin harka, þaulskipulögð tryggingasvik og tugmilljarða fíkniefnaviðskipti einkenna nú undirheima Íslands.

Birgir Olgeirsson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa

Aukin harka, þaulskipulögð tryggingasvik og tugmilljarða fíkniefnaviðskipti einkenna nú undirheima Íslands.

Allt bendir til þess að skipulögð glæpastarfsemi hafi færst í vöxt á Íslandi. Þetta á ekki síst við um þá starfsemi sem erlendir glæpahópar halda uppi. Ofbeldi hefur aukist þeirra á meðal, flutt er inn og framleitt meira af fíkniefnum og þá hefur einn hópurinn svikið út á þriðja hundrað milljónir af íslensku tryggingafélagi.

Í nýjum Kompás þætti, sem hægt er að horfa á hér að neðan, er rætt við lögreglumenn sem hafa miklar áhyggjur af þróuninni. Ekki síst ef albanska mafían fer að láta til sín taka. Kompás fékk að fylgjast með aðgerðum lögreglu í umfangsmiklu máli sem er nú til rannsóknar. Í þættinum má sjá þegar rannsóknarlögreglumenn koma upp um stóra kannabisframleiðslu og fara í húsleit á heimili sakbornings. 

Algjört samfélagsmein

„Ég held að þetta sé samfélagsmein, algjört,“ segir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um skipulagða glæpastarfsemi.

„Þetta er auðvitað eitthvað sem við lítum öll mjög alvarlegum augum,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, um þann skaða sem glæpahópar hafa valdið tryggingafélögum. 

Í Kompás birtast myndbönd af handtökum.

„Þetta er að gerast fyrir framan augun á okkur,“ segir Theodóra Emilsdóttir, settur skattrannsóknastjóri, en embættið kallar eftir úrræðum til að geta brugðist hraðar við grun um að verið sé að misnota skattkerfið og félög til að koma illa fengnu fé undan. 

Minnti á aftöku

Kastljósið beindist að skipulagðri glæpastarfsemi sem aldrei fyrr þegar Íslendingar vöknuðu upp við fregnir af morði í Rauðagerði sunnudagsmorguninn 14. febrúar síðastliðinn. Þjóðin var slegin óhug, enda fordæmalaus atburður, sem minnti einna helst á aftöku. Sá sem var myrtur var skotinn níu sinnum fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. 

Fljótlega bárust upplýsingar um að málið tengdist mögulega skipulagðri glæpastarfsemi. Varað hefur verið við því í mörg ár að ekki væri langt í að ógnvænleg þróun glæpa í Evrópu myndi teygja anga sína til Íslands.

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa áhyggjur af þróuninni. 

Einhver mesta ógn sem samfélög glíma við

„Skipulögð brotastarfsemi er líklega einhver mesta ógn sem samfélög eru að glíma við í dag. Af því að skipulögð brotastarfsemi hefur þann eiginleika að hóparnir geta aðlagað sig og starfsemina einhverju svona því sem er í gangi efst á baugi á hverjum tíma,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á alþjóðasviði ríkislögreglustjóra, sem hefur lengi fengist við rannsóknir tengdar skipulagðri glæpastarfsemi. 

„Að mínu mati er þetta sem við eigum að horfa mjög sterkt að og við eigum að vera með mjög markvissar aðgerðir til að sporna við því að brotahópar geti starfað hér á landi.“

Þrír eða fleiri leggja á ráðin

Með skipulögðum glæpahópum er átt við þegar þrír eða fleiri fremja glæpi með skipulögðum hætti með ávinning að markmiði. Á Íslandi er innflutningur og framleiðsla fíkniefna stærsti þáttur í starfsemi slíkra hópa en á síðustu misserum hefur athygli yfirvalda beinst að skipulögðum tryggingasvikum, fasteignaviðskiptum og peningaþvætti sem hóparnir stunda, auk þess sem stundað er mansal og vændi.

„Þráðurinn í þeim málum hér hefur tengst fíkniefnamálum, með einhverjum hætti. En ég myndi segja það að svona smátt og smátt séu alls kyns fjársvik sem tengjast þessu og auðvitað peningaþvættis þátturinn, það er að segja við erum að horfa meira á þann þátt núna. Líka tengt þessu er alls kyns svikastarfsemi. Auðvitað verið að svíkja opinbera aðila, það er verið að svíkja ríkið,“ segir Karl Steinar. 

Flestir ef ekki allir hóparnir stunda fíkniefnaviðskipti hér á landi. Lögreglan

Frá löndum í Austur-Evrópu og Víetnam

Lögregla telur að hér starfi um fimmtán glæpahópar, með allt að þrjátíu manns í sumum þeirra.

Dæmi eru um að höfuðpaurarnir séu Íslendingar en flestir hóparnir samanstanda þó af blönduðu þjóðerni; Íslendingum og mönnum sem eiga rætur að rekja til Austur-Evrópu: Póllands, Albaníu, Litháen og Rúmeníu. Þá kemur einn hópurinn frá Víetnam.

Fyrir liggur að Austur-Evrópubúar hafa verið fluttir hingað til lands í skemmri eða lengri tíma í þeim eina tilgangi að fremja afbrot, til dæmis við um innbrot, þjófnaði og fíkniefnaviðskipti.

Flóknar rannsóknaraðferðir

„Þetta eru náttúrlega langtímarannsóknir og það er kannski það sem gerir þessar rannsóknir öðruvísi en aðrar. Það er hversu langan tíma þetta tekur,“ segir Margeir en glæpir hópanna sem starfa hér á landi eru oftast mjög vel skipulagðir og lögregla þarf að notast við flóknar rannsóknaraðferðir. 

Fyrstu vikurnar eftir morðið í Rauðagerði unnu rannsóknarlögreglumenn til að mynda dag og nótt. Símar voru hleraðir, umfangsmikil leit var gerð að grunuðum einstaklingum og morðvopninu, fjöldi fólks var yfirheyrður og fjórtán manns fengu stöðu sakbornings. 

Til marks um umfang rannsóknar Rauðagerðismálsins geyma þessar níu möppur gögn málsins sem nú er komið á borð ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Talið er að tveir glæpahópar tengist Rauðagerðismálinu, báðir hafa stundað fíkniefnaviðskipti og aðra glæpi hér á landi um tíma.

Stór blandaður hópur í margþættri brotastarfsemi

Lögreglan hefur fylgst grannt með öðrum glæpahópum sem tengjast ekki Rauðagerðismálinu. Nú eru á annan tug með réttarstöðu sakbornings í umfangsmiklu máli sem hefur verið til rannsóknar frá því í snemma á síðasta ári og leiddi nú í byrjun mars til handtöku tveggja manna sem eru fæddir 1994. 

Í hópnum eru bæði Íslendingar og útlendingar sem taldir eru hafa stundað umfangsmikla fíkniefnaframleiðslu, skatt- og tryggingasvik og þjófnað að andvirði 70 milljóna króna. Þá snýr rannsókn málsins einnig að fasteignaviðskiptum. Rannsóknarlögreglumenn hafa farið í húsleit á á annan tug heimila og fyrirtækja vegna málsins sem enn er í rannsókn.

Lögreglan stöðvaði umfangsmikla kannabisframleiðslu þann 7. apríl. Um var að ræða mjög tæknilega flókna og nánast sjálfvirka framleiðslu. 

Íbúar grunlausir um fullkomna framleiðslu

Þann 7. apríl fékk Kompás að slást í för með rannsóknarlögreglumönnum þegar farið var í aðgerðir tengdar málinu en eftir því sem rannsókninni vindur fram verður ólögleg starfsemi hópsins skýrari.  Um var að ræðamikla kannabisframleiðslu sem var staðsett í kjallara fjölbýlishúss á höfuðborgarsvæðinu. Skömmu áður en fréttamenn Kompás komu á vettvang hafði karlmaður verið handtekinn á staðnum. Lögregla hafði fylgst með staðnum um tíma enda hafði hún upplýsingar um að meðlimir hópsins væru með fleiri fíkniefnaframleiðslur. 

Lögregla hafði fylgst með staðnum um tíma enda hafði hún upplýsingar um að meðlimir hópsins væru með fleiri fíkniefnaframleiðslur.

„Ég myndi telja að hún væri töluvert umfangsmikil og vel úti látin. Ekkert verið sparað hérna við kostnað og búnaði,“ segir einn þeirra þegar Kompás ræddi við hann á vettvangi.  

Ræktunin var afar tæknilega fullkomin og nánast sjálfvirk. Sem fyrr segir var hún í kjallara í fjölbýlishúsi en engar kvartanir frá íbúum hússins höfðu borist lögreglu. Lögregla telur að andvirði búnaðarins, sem var á staðnum, nemi allt að 20 milljónir króna.

„Þeir eru með kerfi til að lykt berist ekki út til almennings. Þessi tjöld sem halda líka gríðarlegri lykt inni í sér. Svo er sjálfvirkt vökvunarkerfi,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn. 

Ágóðinn af plöntunum sem voru í verksmiðjunni hefði geta hlaupið á tugum milljóna.

Hefði skilað tugmilljóna ágóða

„Þessi kannabisræktun er sett upp til að vera hérna til næstu ára. Það er alveg hundrað prósent. Miðað við vökvunarkerfið, lampana, þetta er allt af dýrustu sort og vel gert.“

Hann segir að ágóðinn hefði geta hlaupið á tugum milljóna. 

„Hérna geta menn fengið uppskeru á þriggja mánaða fresti. Ávinningur fyrir þá sem eru í þessu í fullu starfi er gríðarlegur og það gleymist í umræðunni hversu miklir fjármunir og ágóði er á þessu. Menn horfa á þetta oft sem bara gras eða kannabis,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn en ágóðann af kannabisframleiðslum hópanna er oft notaður í aðra ólöglega starfsemi, til dæmis framleiðslu hættulegri efna og ýmsa aðra svikastarfsemi. 

Mega ekki þekkjast

Rannsóknarlögreglumaðurinn, sem starfs síns vegna gat ekki komið fram undir nafni, hefur verið í rannsóknarlögreglunni í tíu ár. Sá sem stýrir fíkniefnadeildinni var einnig á staðnum en hann hefur unnið við rannsóknir af þessum toga frá 2005.

Af hverju er svona mikilvægt að þið þekkist ekki? 

„Ísland er bara það lítið, við gætum ekki unnið vinnuna okkar ef fólk þekkir okkur þar sem við erum við störf,“ segir sá sem stýrir deildinni. 

Kompás fékk að slást í för með rannsóknarlögreglumönnum í húsleit hjá einum sakborningi. Þar fannst talsvert magn af fíkniefnum og seðlum. 

Aukin harka

Hann segir greinilegt að aukin harka hafi færst í glæpahópana hér á landi.

„Glæpirnir eru að verða sýnilegri og ofbeldi sýnilegra í ljósi nýju mála sem hafa verið að koma upp á síðustu mánuðum. Við höfum heyrt eins og allir sem fylgjast með þessu að það sé ákveðinn hópur frá Albaníu sem er hættulegur, en höfum ekki neitt áþreifanlegt nema Rauðagerðismálið auðvitað,“ segir hann. 

Sama dag fékk Kompás að fara með í aðra aðgerð sem einnig tengist skipulagðri glæpastarfsemi, einnig kannabisræktun. Þennan dag lagði lögregla hald á 130 kannabisplöntur, sextíu kíló af kannabisefnum, eitt kíló af amfetamíni og um eina milljón íslenskra króna í reiðufé. Þá voru ýmis efni haldlögð sem ætla má að hafi verið til framleiðslu á sterkari efnum. 

Frá húsleit lögreglu. vísir/nadine

Hætta af skammbyssum í röngum höndum

Í þessu umfangsmikla máli, sem kannabisræktunin var hluti af, lagði lögregla hald á tvær skammbyssur.

„Ein sem var hlaðin í bíl þar sem einnig voru geymd fíkniefni. Hina var búið að gera óvirka, en með litlum lagfæringum er hægt að gera hana virka aftur. Þetta er sennilega stolið,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn. 

Lögreglan hefur lagt hald á nokkrar byssur það sem af er ári. lögreglan

En eruði oft að sjá skammbyssur hjá þessum hópum?

„Það kemur reglulega fyrir já, skammbyssur og stærri byssur.“ 

Hafiði áhyggjur af því gagnvart almenningi til dæmis? 

„Já, það er auðvitað hætta ef þetta er í höndum á mönnum á götunni í allskonar ástandi, að þeir geti beitt þessum skotvopnum.“

Margeir telur þó að hvorki lögreglu né almenningi standi ógn af skammbyssueign glæpahópanna.

„Þessir hópar eru yfirleitt að sækja sér vopn, barefli, hnífa og skotvopn, til að nota gagnvart hverjum öðrum en ekki til að fara gagnvart almenningi eða lögreglu,“ segir Margeir. 

Í Kompás birtist myndbönd af handtökum í svokölluðu Borgarfjarðarmáli þar sem um var að ræða umfangsmikla amfetamínframleiðslu í 35 fermetra sumarbústað. Þeir sem að henni stóðu fengu þunga dóma fyrir að framleiða átta og hálft kíló af amfetamíni. 

Handtökur á Suður- og Vesturlandsvegi

Fleiri umfangsmikil mál sem lögregla flokkar sem skipulagða glæpastarfsemi hafa komið á borð lögreglu síðustu misseri. Á myndböndum sem birtast í Kompás sjást þegar sérsveitarmenn stöðva sakborninga í máli sem tengist amfetamínframleiðslu á Suðurlandsvegi árið 2019.

Einnig birtum við myndefni af handtöku í svokölluðu Borgarfjarðarmáli þar sem um var að ræða umfangsmikla amfetamínframleiðslu í 35 fermetra sumarbústað. Mennirnir hlutu þunga dóma fyrir það að framleiða átta og hálft kíló af amfetamíni.

Líklega grætt yfir níu milljarða á þremur árum

Ljóst er að þessi markaður veltir gríðarlega miklum fjármunum og starfsemin er þaulskipulögð hjá sumum þeirra afbrotahópa sem nærri koma.

„Til að koma með einhverja hugmyndir um upphæðir sem er verið að tala um má áætla að lögreglan sé að taka svona tíu prósent af þeim fíkniefnum sem eru á markaðnum. Og núna 2018 til 2020 þá reiknast okkur til að götuvirði þeirra fíkniefna sem lögreglan hefur lagt hald á sé rúmlega milljarður á þessum þremur árum," segir Margeir. Þetta þýðir að hóparnir hafi líklega grætt yfir níu milljarða á þessum þremur árum fyrir fíkniefnaviðskipti. 

Þannig upphæðirnar eru alveg rosalegar í þessu,

segir Margeir. 

Á árunum 2018 til 2021 telur lögregla að hún hafi lagt hald á fíkniefni sem hefðu selst á götunni fyrir rúman milljarð. 

Íslensk fyrirtæki undir smásjá lögreglu

Þessum mikla hagnaði sem aflað er með ólögmætum hætti þarf einhvern veginn að koma inn í löglega starfsemi. Nokkur fyrirtæki hér á landi, sem tengjast glæpahópunum, eru undir smásjá lögreglu vegna gruns um að stunda peningaþvætti.

„Þau eru allmörg. Þetta eru fyrirtæki, verktakafyrirtæki, fyrirtæki sem er í innflutningi á vörum og það eru fasteignafyrirtæki, þeir eru að selja fasteignir eða ökutæki og veitingarekstur," segir Margeir. 


Peningaþvætti

Gefum okkur að að það séu þrír aðilar saman í brotastarfsemi. Tveir stofna saman bílaþvottastöð. Sá þriðji fer með seðlana á bílaþvottastöðina og hinir tveir láta líta út fyrir að sá þriðji kaupi þjónustu þar fyrir þá upphæð sem þeir þurfa að koma undan hverju sinni. Þeir sem reka bílaþvottastöðina taka við peningnum og setja hann inn í fyrirtækið þannig að allt líti eðlilega út. Þá eru þeir komnir með bílaþvottastöð sem samkvæmt ársreikningi gefur þá ásýnd að það sé stöðugur straumur fólks að láta þvo bílana sína. En reyndin er önnur. Þetta er dæmi um leið til að koma fé sem aflað er með ólöglegum hætti inn í löglega starfsemi.


Í tveimur aðgerðum lögreglu þann dag sem Kompás slóst með í för var hald lagt á um eina milljón íslenskra króna í reiðufé. 

Glæpir sem hafa óbein áhrif á almenning

Hvernig skekkir þetta myndina fyrir hinn almenna borgara? 

„Þetta skekkir raunverulega bara öll viðmið sem við erum með. Kannski dags daglega erum við ekki að átta okkur á því hvernig þetta er. Hinn almenni borgari er ekki alltaf að sjá það, en það eru margvísleg áhrif og það kvíslast inn í alla þætti raunverulega í samfélaginu,“ segir Karl Steinar. 

Skipulagðir glæpahópar hafa fundið fleiri leiðir til að græða peninga hér á landi, meðal annars með tryggingasvikum. Tvö íslensk tryggingafélög hafa brugðist við með því að ráða til starfa fyrrverandi rannsóknarlögreglumenn.

„Þeir eru fengnir til starfa til að reyna verja félögin fyrir því að vera misnotuð,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. 

„Það þarf ákveðna rannsóknarfærni til að skima málin og til þess að lesa úr ákveðin mynstur og það er það sem þeir kunna og þetta er eitthvað sem við munum sjá aukningu í hér,” segir Katrín. 

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir tryggingafélögin hafa áhyggjur af stöðunni og að þau fagni auknu samstarfi við lögreglu. 

Grunaðir um að aka á ljósastaura af ásetningi

Lögreglan rannsakar nú tvö mál er varða umfangsmikil tryggingasvik tveggja glæpahópa sem hafa fengið greiddar út háar upphæðir fyrir tryggingafélögum. 

„Það er fyrir líkamlegt tjón sem þeir eru að fá bætur og svo líka á eignum. Þetta bitnar á tryggingafélögunum og okkar iðgjöldum,“ segir Margeir.  

Fyrra málið snýr að sviðsettum slysum glæpahóps frá Austur-Evrópu sem reyndi að fá greiddar út tugi milljónir í bætur frá einu tryggingafélaganna. Bætur höfðu aðeins verði greiddar út að hluta áður en upp komst um svikin.

Seinna málið er nokkuð umfangsmeira og snýr að stærri hópi sem grunaður er um að hafa ekið bílum sínum ítrekað á ljósastaura af ásetningi. Fólk í hópnum hefur fengið greiddar bætur fyrir líkamstjón, frá öðru íslensku tryggingafélagi, fyrir rúmlega tvo hundruð milljónir króna. Stundum hafði fólkið hópað sig saman í bíl og ekið á ljósastaur en eftir að tryggingafélagið fór að átta sig á ákveðnu mynstri fékk lögreglan málið til rannsóknar.

Einn glæpahópurinn er grunaður um að hafa svikið út á þriðja hundrað milljónir af einu íslensku tryggingafélagi. 

Tryggingafélögin í auknu samstarfi við lögreglu

Samtök fjármálafyrirtækja áætla að þrír til sjö milljarðar tapist árlega vegna tryggingasvika hér á landi en það er aðeins að hluta vegna skipulagðra glæpahópa og er þá tekið mið af tölum frá Norðurlöndunum. Katrín telur að þetta sé vanrannsakað hér á landi, auk þess sem oft sé erfitt fyrir tryggingafélögin að aðhafast vegna ríkrar sönnunarbyrði.

„Það hafa fallið dómar hér á landi sem vekja mann til umhugsunar: ef tveir af fimm sakborningum í málum um peningaþvætti eða fíkniefnamisferli skýra tekjur sínar með slysabótum og frekar háum slysabótum. Þetta fær mann til að hugsa hversu algengt þetta er í raun og veru. Þetta er miklu algengara en við höfum náð utan um,“ segir Katrín og bætir við að tryggingafélögin fagni auknu samstarfi við lögreglu.  

Þá hafi tjónagagnagrunnur sem tekinn var í gagnið árið 2019, að norskri fyrirmynd, hjálpað félögunum í baráttunni.

Tryggingasvik glæpahópa bitna á iðgjaldagreiðendum.

„Þetta er gert með mjög skýrum tilgangi sem er að reyna verja iðgjaldagreiðendur, viðskiptavini vátryggingafélaganna, fyrir því að verið sé að misnota félögin í glæpsamlegum tilgangi. Þetta er auðvitað eitthvað sem við lítum öll mjög alvarlegum augum þar sem þetta bitnar á almennum borgunum með beinum og óbeinum hætti,“ segir Katrín. 

Milljörðum komið undan

Eins og tryggingafélögin er skattrannsóknarstjóri með nokkur mál til rannsóknar sem tengjast skipulögðum glæpahópnum. Embættið áætlar að um einn milljarður hafi tapast í fyrra vegna nokkurra mála sem eru þar til rannsóknar. Út frá því sé hægt að draga þá ályktun að mörgum milljörðum sé komið undan á ári hverju með slíkri svikastarfsemi. 

Hér er um að ræða misnotkun á skattkerfinu sem felst í útgáfu tilhæfulausra reikninga.

„Þetta sjáum við mikið í auknum mæli á undanförnum árum,“ segir Theodóra Emilsdóttir, settur skattrannsóknastjóri. 

Theodóra Emilsdóttir, settur skattrannsóknastjóri.

Tilhæfulausir reikningar

Þegar búið er að þvætta peningana á bílaþvottastöðinni vilja glæpahóparnir koma þeim undan skattinum. Þá stofna þeir annað félag; segjum t.d. sápufyrirtæki, sem er þó með engan rekstur á bak við sig. Sápufyrirtækið er notað í þeim eina tilgangi að gefa út reikninga á bílaþvottastöðina fyrir háar fjárhæðir. Bílaþvottastöðin greiðir sápufyrirtækinu og eigandi sápufyrirtækisins fer í bankann, tekur út upphæðina í reiðufé og skilar henni aftur til eigenda bílaþvottastöðvarinnar.


„Sem nota þá í þeim tilgangi að lækka sína skattbyrði, að greiða út svört laun og til að ná út fjármunum úr rekstrinum og með þessu er verið í rauninni verið að misnota bæði félagið og virðisaukaskattskerfið," segir Theodóra. 

Vilji er fyrir því innan embættisins að geta brugðist strax við grunsamlegu athæfi fyrirtækja en eins og sakir standa geta liðið mörg ár þar til eitthvað sé hægt að gera eins og lagaumhverfið er í dag.

„En þetta er að gerast fyrir framan nefið á okkur. Við sjáum þetta gerast og það þarf að grípa strax inn í.“

Óttast albönsku mafíuna og vilja ekki lenda undir

Ljóst er að skipulagðir glæpahópar valda miklu tjóni hér á landi. Lögreglan óttast þessa þróun og má í því samhengi nefna albönsku mafíuna en vaxandi umsvif hennar hefur valdið lögregluyfirvöldum um allan heim ótta. 

Þó telur lögreglan að albanska mafían sé ekki enn komin til landsins en að hér séu þó aðilar sem tengjast henni. Albanska mafían er háþróuð og vel skipulögð og það er erfitt fyrir lögreglu að ráða við hana. Hún hefur til að mynda yfirtekið allan fíkniefnamarkaðinn í Bretlandi og þá hefur hún komið sér fyrir á Norðurlöndunum.

Lögreglumenn telja því mikilvægt að grípa til aðgerða áður en það verður um seinan.

„Það er gríðarlega mikilvægt, ekki viljum við lenda undir gagnvart þessum hópum sem beita ofbeldi og ef þeir ná tökum hérna á götunni þá getum við verið í mikilli hættu. Það sem maður hefur heyrt er að hópar fái að starfa óáreittir á vissum sviðum og leggja undir sig heilu hverfin, til dæmis á Norðurlöndunum,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn. 

Er þá mikilvægt að stjórnvöld setji meira fjármagn í þetta? 

„Algjörlega, gríðarlega mikilvægt,“ segir hann en lögregla nær alls ekki að sinna öllum málunum eins og hún vildi. 

Lögregla kallar eftir því að tekið sé til skoðunar hvort taka eigi seðla úr umferð hér á landi.

Á að taka seðla úr umferð?

Margeir og Karl Steinar kalla eftir umræðu um hvort taka eigi seðla úr umferð hér á landi til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

„Er það eitthvað sem við eigum að horfa til að afnema? Myndi það breyta starfseminni og gera brotahópum erfiðara fyrir. Þetta er svolítið flókið sem nálgunin er. En verðum að geta rætt þetta, er þetta eitthvað sem við eigum að horfa til,“ segir Karl Steinar. Upp á síðkastið hafi þetta verið rætt meðal evrópuþjóða. Lögregla ætli að vekja máls á þessu við yfirvöld.

Lögleiðing fíkniefna virki ekki

Í umræðunni hefur verið nefnt að lögleiða fíkniefni og þá yrði fótunum kippt undan starfsemi skipulagðra glæpahópa. Báðir vilja Margeir og Karl Steinar meina að það sé ekki rétta nálgunin og nefna máli sínu til stuðnings gríðarmikinn svartan markað með læknalyf.

En lögleiðing fíkniefna, myndi það breyta einhverju? 

„Þetta held ég að sé ekki rétta leiðin því eins og með lyf, læknalyf og svoleiðis, hvernig gengur okkur að halda utan um það? Þar erum við að sjá stóran markað á götunni. Þannig að ég held að það sé ekki rétta nálgunin að fara lögleiða þessi efni,“ segir Margeir. 

Á morgun birtir Kompás viðtal við Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur, ekkju Armando Beqiari sem myrtur var í Rauðagerði.  VÍSIR/VILHELM

Morðið í Rauðagerði hefur vakið upp mikla umræðu um skipulagða glæpahópa hér á landi og ógnina sem stendur af þeim. Á morgun birtir Kompás viðtal við Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur, ekkju Armando Beqirai, sem myrtur var fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í febrúar. Sá sem myrti eiginmann hennar var eftirlýstur í heimalandinu og þá hafði lögregla upplýsingar um að hann væri vopnaður skammbyssu nokkrum vikum fyrir morðið. Þá hefur Kompás heimildir fyrir því að hann hafi framvísað fölskuðu sakarvottorði með umsókn sinni um dvalarleyfi hér á landi og að leyfið hafi ekki verið afturkallað þegar upp komst um málið. 

„Ég ætla bara virkilega að vona það að þetta veki upp spurningar hjá fleiri en mér að fólk geti gengið hérna inn í landið eftir að hafa framið einhverja hrottalega glæpi annars staðar. Það er náttúrulega ofboðslega sorglegt að hugsa til þess að ef reglurnar væru réttar þá væru hlutirnir öðruvísi, þá hefði þetta jafnvel ekki gerst,“ segir Þóranna Helga Gunnarsdóttir í áhrifaríku viðtali sem birtist á morgun í Kompás. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.