Fótbolti

Ver Kepa mark Chelsea í úr­­slitum Meistara­­deildar Evrópu?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kepa gæti staðið milli stanganna í leik Chelsea og Manchester City næstu helgi.
Kepa gæti staðið milli stanganna í leik Chelsea og Manchester City næstu helgi. EPA-EFE/Shaun Botterill

Það gæti farið svo að Edouard Mendy, markvörður Chelsea, verði fjarri góðu gamni er Chelsea mætir Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Spánverjinn Kepa Arrizabalaga gæti því staðið vaktina er félögin mætast þann 29. maí.

Englandsmeistarar Manchester City og Chelsea mætast á Estádio do Dragão-vellinum í Portúgal þann 29. maí næstkomandi í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Aðalmarkvörður Chelsea, Mendy, fór meiddur af velli í hálfleik er Chelsea tapaði 2-1 fyrir Aston Villa á lokadegi ensku úrvalsdeildarinnar.

Það gæti farið svo að Mendy missi af úrslitaleiknum og Kepa fái tækifæri á nýjan leik. Sá spænski stóð milli stanganna er Chelsea tapaði úrslitum FA-bikarsins nýverið en það var aðeins 14. leikur hans á tímabilinu. Kepa hefur átt erfitt uppdráttar síðan Chelsea gerði hann að dýrasta markverði í heimi sumarið 2018 og var hann til að mynda ekki valinn í landsliðshóp Spánar fyrir Evrópumótið í sumar.

Nú gæti Kepa hins vegar fengið fullkomið tækifæri til að sýna alþjóð hvað í sér býr er Chelsea reynir að stöðva sigurgöngu Manchester City. Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, hefur hins vegar sagt að Lundúnaliðið muni gera allt sem það getur til að gera Mendy leikfæran. Þjóðverjinn hefur ýjað að því að Mendy verði orðinn leikfær um helgina.

Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram á laugardaginn, þann 29. maí, og verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan 19.00 en upphitun hefst klukkutíma fyrr.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×