Erlent

Gagn­rýnir fær­eyska utan­ríkis­ráð­herrann fyrir að af­þakka bólu­setningu

Atli Ísleifsson skrifar
Jenis av Rana er læknir og utanríkisráðherra Færeyja.
Jenis av Rana er læknir og utanríkisráðherra Færeyja. EPA

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, hefur gagnrýnt utanríkisráðherra sinn, Jenis av Rana, fyrir að afþakka bólusetningu gegn kórónuveirunni. Lögmaðurinn segir ráðherrann með þessu senda Færeyingum slæm skilaboð.

Orð Jenis af Rana, sem er læknir að mennt og formaður hins kristilega Miðflokks, hafa vakið mikla athygli í Færeyjum, en hann sagði í viðtali við vp.fo að hann vilji ekki láta bólusetja sig af ótta við mögulegar aukaverkanir til langs tíma.

Færeyingar hafa aðeins verið að bólusetja með bóluefni Pfizer.

Með orðum sínum gengur Jenis af Rana gegn ráðleggingum þeirrar stjórnar sem hann á sjálfur aðild að, en líkt og á við um önnur lönd er stefnt að því að ná hjarðónæmi í Færeyjum fyrir tilstilli bólusetningar.

Jenis av Rana segir ákvörðun sína persónulega og segist hann heldur ekki vilja ráðleggja fólki hvað það eigi að gera í þessum málum. Hann virði val hvers og eins.

Þrándur í Götu

Aksel V. Johannessen, fyrrverandi lögmaður og formaður stjórnarandstöðuflokksins Jafnaðarmannaflokksins, hefur gagnrýnt utanríkisráðherrann harðlega og sagt að ef um eitthvert annað land á Norðurlöndum hefði verið að ræða þá hefði ráðherranum verið vikið tafarlaust úr embætti vegna orða sinna.

Johannessen segir jafnframt að Jenis af Rana sé landsstjórninni þrándur í götu í þeirri baráttu sinni og Færeyinganna að ná að opna landið á ný.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.