Erlent

Herstjórnin sögð ætla að leysa upp stærsta flokk Mjanmar

Samúel Karl Ólason skrifar
Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörinn leiðtogi Mjanmar, hefur verið í haldi hersins frá því í byrjun febrúar en hún hefur verið ákærð af herstjórninni sem tók völd í landinu og gæti verið dæmd til langrar fangelsisvistar.
Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörinn leiðtogi Mjanmar, hefur verið í haldi hersins frá því í byrjun febrúar en hún hefur verið ákærð af herstjórninni sem tók völd í landinu og gæti verið dæmd til langrar fangelsisvistar. AP/Sakchai Lalit

Herstjórn Mjanmar hefur skipað sérstaka nefnd til að leysa upp stjórnmálaflokk Aung San Suu Kyi, sem bar sigur úr býtum í þingkosningum í fyrra. Herstjórnin tók völd þann 1. febrúar í kjölfar kosninganna og hefur haldið því fram að umfangsmikið svindl hafi átt sér stað. Herstjórnin hefur þó ekki getað fært sönnur fyrir þeim ásökunum.

Nefnd þessi á að leysa upp stjórnmálaflokkinn vegna þessa meinta kosningasvindls. Flokkurinn, sem kallast NLD, vann yfirburðasigur í kosningunum í nóvember og hefur kjörstjórn landsins hafnað ásökunum hersins um kosningasvik.

Reuters fréttaveitan hefur þessar ætlanir herstjórnarinnar eftir fjölmiðlum í Mjanmar.

Öryggissveitir hafa banað minnst átta hundruð mótmælendum í kjölfar valdaránsins og hefur komið til átaka milli hersins og skæruliðahópa í Mjanmar. Þrátt fyrir mikinn þrýsting alþjóðasamfélagsins hefur herstjórnin ekkert gefið eftir.

Aung San Suu Kyi, fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1991, þegar hún var fangelsuð af her Mjanmar fyrir að berjast fyrir lýðræði og mannréttindum. Hún sat í stofufangelsi í fimmtán ár og fékk ekki að yfirgefa Mjanmar til að sækja verðlaunin árið 2013.

Á undanförnum árum hefur hún verið harðlega gagnrýnd vegna þjóðarmorðs gegn Rohingjamúslimum í Mjanmar.

Sjá einnig: Ætla ekki að svipta Suu Kyi Nóbelsverðlaununum

Ríkið með tvö nöfn

Mjanmar gengur í raun undir tveimur nöfnum. Það hét lengi, og er víða enn kallað, Búrma. Árið 1989, eftir að þáverandi herstjórn landsins barði niður hreyfingu mótmælenda sem vildu lýðræðisumbætur, með miklu ofbeldi, breytti herstjórnin nafni landsins í skyndi.

Herinn sagði þá að Búrma væri nafn sem tengdist nýlendutíma ríkisins og skildi aðra þjóðflokka landsins útundan. Nafnið Búrma er sama nafn og stærsti þjóðflokkur landsins ber.

Heiti ríkisins var ekki breytt í landinu sjálfu. Á burmnesku heitir Mjanmar enn formlega Búrma, samkvæmt samantekt PBS.

Á heimsvísu var ákveðin tregða til að notast við Mjanmar en það hefur breyst á undanförnum árum, með aukinni hreyfingu í átt að lýðræði í landinu og minni áhrifum hersins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.