Núverandi reglugerð gildir til 26. maí, sem er miðvikudagur í næstu viku. Svandís sagði við fréttastofu í vikunni að létt yrði á aðgerðum fyrr, og nefndi þar eftir helgina. Hins vegar er annar í hvítasunnu á mánudag og því gæti afléttingin átt sér stað á þriðjudag.
Þá sagði Svandís reikna með að samkomubann yrði að minnsta kosti útvíkkað til hundrað manna. Sem stendur er 50 manna samkomubann í landinu og tveggja metra regla auk fleiri takmarkana.

Ríkisstjórnin er sem stendur á reglulegum föstudagsfundi í Ráðherrabústaðnum þar sem minnisblað Þórólfs verður vafalítið rætt. Nokkur smit hafa greinst á landinu undanfarna daga og sum hver utan sóttkvíar.
„Við höfum verið með þessar afléttingar undanfarið þrátt fyrir smit í samfélaginu. Ég held við ættum að halda því áfram,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í gær.
Þá sagðist Þórólfur á upplýsingafundinum í gær hafa þegar skilað ráðherra tillögum að aðgerðum á landamærum.
Reiknað er með að fundi ríkisstjórnar ljúki um ellefuleytið.
Vísir verður í beinni útsendingu frá Tjarnargötu og ræðir við Svandísi að loknum fundi.
Uppfært: 150 mega koma saman á þriðjudaginn, fólk þarf ekki að bera grímur í verslunum og veitingastaðir taka á móti gestum til klukkan 23 (opið til 24). Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar mega taka við leyfilegum hámarksgjölda.
Þá ræddi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra aðgerðir á landamærum. Bólusettir verða áfram skimaðir á landamærum til 15. júní. Krafa um sóttvarnahótel falli niður 1. júní og sömuleiðis bann við ónauðsynlegum ferðum.