Innlent

Bandarísk C-5 herþota þveraði fluglegg Lavrovs yfir Hornafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þota Sergeis Lavrovs yfir Hornafirði síðdegis, táknuð sem gul, nýfarin yfir ratsjárstöð NATO á Stokksnesi. Bandaríska herflutningaþotan, táknuð sem rauð, var í sömu andrá yfir austanverðum Vatnajökli en hafði 2-3 mínútum áður þverað fluglegg Lavrovs yfir Hornafirði.
Þota Sergeis Lavrovs yfir Hornafirði síðdegis, táknuð sem gul, nýfarin yfir ratsjárstöð NATO á Stokksnesi. Bandaríska herflutningaþotan, táknuð sem rauð, var í sömu andrá yfir austanverðum Vatnajökli en hafði 2-3 mínútum áður þverað fluglegg Lavrovs yfir Hornafirði. Flightradar24

Herflutningaþota bandaríska flughersins af gerðinni Lockheed C-5 Galaxy flaug inn yfir Ísland og þvert fyrir fluglegg Ilyushin-þotu Sergeis Lavrovs nú síðdegis aðeins um 2-3 mínútum áður en þota utanríkisráðherra Rússlands kom að Íslandsströndum.

Atvikið mátti sjá á flugratsjársíðunni Flightradar 24 en það gerðist yfir Hornafirði um hálffimmleytið, þegar þota Lavrovs átti eftir um hálftíma flug til Keflavíkur. Nægilegur hæðaraðskilnaður tryggði að engin hætta var á ferðum. Bandaríska herflutningaþotan var í 34 þúsund feta hæð en þota Lavrovs í 36 þúsund feta hæð þegar þær flugu yfir Hornafjörð.

Lockheed C-5 Galaxy er stærsta herflutningaþota Bandaríkjahers.U.S. Air Force/Brad Fallin

Samkvæmt upplýsingum sem sjá má á Flightradar 24 var Galaxy-þotan að koma frá Zweibrücken-flugvellinum í Þýskalandi sem þjónaði áður sem herstöð Bandaríkjamanna og NATO. Ekki kemur fram hver áfangastaður bandarísku herþotunnar er en hún stefndi til norðvesturs í átt til Grænlands. Þota Lavrovs var hins vegar að koma frá Dúsjanbe, höfuðborg Tadsikistan.

Þota Sergeis Lavrovs er af gerðinni Ilyushin IL-96-300.Wikimedia

Hvort tilviljun hafi ráðið þessu atviki eða hvort það hafi verið liður í einhverskonar kaldastríðsögrun skal ósagt látið. Þess má þó til gamans geta að Ilyushin IL-96-300 breiðþota Lavrovs er mun stærri en Boeing 757-þotan sem bandaríski utanríkisráðherrann Antony Blinken mætti á til Íslands. Lockheed C-5 Galaxy-risaþotan trompar hins vegar Ilyushin-þotuna enda stærsta þota bandaríska flughersins.


Tengdar fréttir

Katrín: Mikil valdabarátta í aðdraganda fundarins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist merkja mikla valdabaráttu í aðdraganda fundar Norðurskautsráðsins á morgun. Þjóðirnar séu að marka sér stöðu. Þetta sagði Katrín í viðtali við fréttastofu að loknum fundi hennar með Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×