Samband evrópskra sjónvarpsstöðva greindi fyrst frá smitinu í yfirlýsingu í dag. Íslenski hópurinn var þannig fjarri góðu gamni á opnunarathöfn keppninnar í Rotterdam nú síðdegis. Fjarverandi voru einnig pólski hópurinn, þar sem smit kom upp í gær, auk fulltrúa Rúmeníu og Möltu, sem eru á sama hóteli og Ísland og Pólland.
„Það er náttúrulega öllum dálítið brugðið að sjálfsögðu, þetta er eitthvað sem við höfðum séð sem möguleika. Við erum á hárauðu svæði í Hollandi, hér hittast þjóðir sem margar hverjar eru að eiga við Covid þessa dagana þannig að það var alveg vitað að það væri möguleiki,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, í samtali við fréttastofu - úr sóttkví á hótelherbergi sínu í Rotterdam.
Algjörlega í opna skjöldu
Hópurinn var bólusettur með bóluefni Janssen fyrir brottför og Felix telur að í því ætti að vera fólgin ágæt vörn. Sá sem greindist er ekki í Eurovision-atriðinu sjálfu en Felix segir viðkomandi ekki finna fyrir neinum einkennum.
„Og þetta kom viðkomandi algjörlega í opna skjöldu þegar þetta gerðist í dag. Viðkomandi ætlaði bara út að hlaupa og taka daginn rólega, það er fallegt veður og svona, á meðan við hin færum á „teppið“ [opnunarhátíð Eurovision] en það varð ekki, því miður,“ segir Felix.
„En það kom upp smit í pólska hópnum og þá fékk maður strax svona vonda tilfinningu, að það væri Covid á hótelinu.“
Íslenski hópurinn var sendur í sýnatöku í dag en niðurstöðu er að vænta á morgun. Þá tekur við nokkurra daga sóttkví. Ísland verður þó með í keppninni sama hvað, þó að sóttkvíin teygi sig fram yfir seinna undankvöld Eurovision á fimmtudag.
„Til að bæta þetta enn meira var æfingin okkar mjög góð á fimmtudaginn og ef allt um þrýtur verður hún notuð,“ segir Felix.