Fótbolti

Stórsigur AZ Alkmaar í lokaleik tímabilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar í dag.
Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar í dag. ANP Sport via Getty Images

Albert Guðmundsson og félagar í AZ Alkmaar tóku á móti Heracles í lokaumferð hollensku úrvalsdeildarinnar í dag. Það tók heimamenn 41 mínútu að brjóta ísinn, en fjögur mörk í seinni hálfleik tryggðu öruggan 5-0 sigur AZ Alkmaar.

Myron Boadu kom heimamönnum yfir undir lok fyrri hálfleiks og staðan því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Jesper Karlsson tvöfaldaði forystu heimamanna á 50. mínútu og var svo aftur á ferðinni sjö mínútum seinna þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark AZ Alkmaar.

Myron Boadu kom heimamönnum í 4-0 þegar um korter var eftir af leiknum og sigurinn því gulltryggður.

Ekki batnaði það fyrir Heracles þegar að Lucas Schoofs braut á Myron Boadu innan vítateigs þrem mínútum fyrir leikslok.

Owen Wijndal fór á punktinn, en vítaspyrna hans hafnaði í þverslánni. Mats Knoester reyndi að hreinsa boltann frá en það gekk ekki betur en svo að boltinn barst aftur til Owen Wijndal sem þakkaði fyrir sig með því að skora fimmta mark AZ Alkmaar.

Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar í dag, en var tekinn af velli á 63. mínútu. Albert og félagar enda í þriðja sæti deildarinnar og fara því í umspil um sæti í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×