Erlent

Biden hringdi í leið­toga Ísraels og Palestínu

Sylvía Hall skrifar
Samkvæmt tilkynningu Hvíta hússins sagðist Biden „styðja rétt Ísraels til að verja sig“.
Samkvæmt tilkynningu Hvíta hússins sagðist Biden „styðja rétt Ísraels til að verja sig“. Samsett/Getty

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur hringt bæði í Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas forseta Palestínu til þess að ræða stöðu mála á Gasa-svæðinu. Árásir Ísraelshers á svæðinu héldu áfram í dag, sjötta daginn í röð, og fórust átta börn í loftárás í flóttamannabúðum á svæðinu í nótt.

Samkvæmt tilkynningu Hvíta hússins sagðist Biden „styðja rétt Ísraels til að verja sig“ en lýsti yfir áhyggjum af dauðsföllum, bæði í Ísrael og Palestínu. Þá kallaði hann eftir því að blaðamönnum yrði veitt vernd eftir að bygging sem hýsti meðal annars skrifstofur AP og Al Jazeera var sprengd í loft upp.

Staðan hefur versnað með degi hverjum og hefur alþjóðasamfélagið kallað eftir því að árásirnar taki enda. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda á morgun til þess að ræða stöðuna og hefur Hady Amr, sendiherra Bandaríkjanna, ferðast til Ísraels til þess að taka þátt í viðræðum Ísraela, Palestínumanna og embættismanna Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt yfirvöldum í Palestínu hafa 145 látið lífið þar frá því á mánudag og tíu í Ísrael. Að sögn palestínskra yfirvalda er 41 barn meðal hinna látnu þar.


Tengdar fréttir

Telur íslensk stjórnvöld hræðast að „stugga við“ Ísrael

Þingmaður Samfylkingar vill að ríkisstjórnin fordæmi aðgerðir Ísraelsmanna á Gasasvæðinu undanfarna daga. Hún telur að stjórnvöld hræðist það að stugga við ísraelskum stjórnvöldum og því hafi ríkisstjórnin ekki tekið skýrari afstöðu með Palestínu en raun ber vitni.

Átta börn féllu í einni loftárás

Tíu féllu, þar af átta börn í einni loftárás Ísraelsmanna á hús í flóttamannabúðum á Gasa-ströndina í nótt. Þetta mannskæðasta loftárásin hingað til. Þá voru minnst ellefu Palestínumenn skotnir til bana af öryggissveitum við mótmæli á Vesturbakkanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×