Fótbolti

Zlatan ekki með á EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Zlatan verður ekki með sænska landsliðinu á EM.
Zlatan verður ekki með sænska landsliðinu á EM. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Zlatan Ibrahimović verður ekki með sænska landsliðinu á EM í sumar. Hann fór meiddur af velli í 3-0 sigri AC Milan á Juventus og í gær var staðfest að framherjinn sænski myndi ekki taka þátt á EM vegna meiðslanna.

Zlatan meiddist á hné í leiknum og eftir spjall við Janne Anderson, landsliðsþjálfara Svíþjóðar, kom í ljós að Zlatan verður ekki leikfær á EM í sumar. Þetta er mikið áfall fyrir hinn 39 ára gamal Zlatan sem og sænska landsliðið en framherjinn tók landsliðsskóna af hillunni til að hjálpa liðinu í sumar.

„Ég talaði við Zlatan í dag og hann sagði mér að meiðslin væru þess efnis að hann gæti ekki tekið þátt á EM í sumar. Auðvitað er ég sorgmæddur, sérstaklega fyrir hönd Zlatans en einnig fyrir okkar hönd. Vonandi jafnar hann bráðlega og kemst aftur á völlinn sem fyrst,“ sagði Anderson í viðtali í gær.

AC Milan hefur gefið út að Zlatan verði frá sex vikur hið minnsta eftir að hafa verið meðhöndlaður af læknum liðsins. Hinn 39 ára gamli framherji er þó hvergi nálægt því að leggja skóna á hilluna en hann skrifaði undir nýjan árs samning við Milanó-liðið fyrir skömmu.

Svíþjóð mætir Spáni í fyrsta leik liðanna á EM þann 14. júní næstkomandi. Janne Anderson mun tilkynna sænska hópinn núna 18. maí og má hann velja 26 leikmenn í heildina. Það er þó ljóst að Zlatan verður ekki einn þeirra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.