Íslenski boltinn

Fyrsti sigur Tinda­stóls í sögu efstu deildar kominn í hús

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tindastóll fagnaði sínum fyrsta sigri í efstu deild kvenna í knattspyrnu í dag.
Tindastóll fagnaði sínum fyrsta sigri í efstu deild kvenna í knattspyrnu í dag. Vísir/Sigurbjörn Andri

Tindastóll tók á móti ÍBV í Pepsi Max deild kvenna í dag. Þetta var þriðji leikur ÍBV á tímabilinu, en aðeins annar leikur Tindastóls. Tindastóll vann góðan 2-1 sigur og er þar af leiðandi komið með sinn fyrsta sigur í sögu efstu deildar kvenna í knattspyrnu.

ÍBV vann frábæran sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks og því var reiknað með að nýliðar Tindastóls yrðu í brasi í dag. Heimakonur byrjuðu hins vegar leikinn af miklum krafti og leyfðu gestunum ekkert að hanga á boltanum.

Eftir rúmlega hálftíma leik braut María Dögg Jóhannesdóttir ísinn fyrir Tindastól. Aukaspyrna Jacqueline Altschuld fann Murielle Tiernan sem potaði boltanum á Maríu sem kláraði færið vel.

Á 51. mínútu voru heimakonur búnar að tvöfalda forystuna. Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving varði þá skot Murielle Tiernan, en Hugrún Pálsdóttir tók frákastið og skoraði fyrir Tindastól.

Clara Sigurðardóttir minnkaði muninn fyrir gestina þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka eftir sendingu frá Hönnu Kallmaier. Nær komust ÍBV ekki og 2-1 sigur Tindastóls því staðreynd.

Tindastóll lyftir sér því upp í 3. sæti með fjögur stig en ÍBV er áfram með þrjú stig og situr í 6. sæti Pepsi Max deildar kvenna.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.