Fótbolti

Mögu­leikar AZ á Meistara­deildar­sæti svo gott sem úr sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert í leik með AZ á leiktíðinni.
Albert í leik með AZ á leiktíðinni. EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO

AZ Alkmaar gerði markalaust jafntefli við Groningen í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Það þýðir að möguleikar AZ á því að ná 2. sæti og þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eru svo gott sem úr sögunni.

Albert Guðmundsson hóf leik sem fremsti maður hjá AZ sem tókst ekki að sækja gull í greipar Groningen í dag. Albert var tekinn af velli á 89. mínútu er AZ reyndi að hrista upp í sóknarleik sínum.

Gamla brýnið Arjen Robben kom inn af bekknum hjá heimamönnum á 83. mínútu en tókst heldur ekki að setja mark sitt á leikinn.

Þegar ein umferð er eftir í hollensku úrvalsdeildinni er AZ Alkmaar í 3. sæti með 68 stig. Það er öruggt að liðið fer ekki neðar en Vitesse er í 4. sæti með 61 stig. PSV vann hins vegar 4-2 sigur á Zwolle í dag og er því með 71 stig.

PSV er einnig með betri markatölu og því þyrfti AZ að vinna stórsigur á Heracles í síðustu umferð deildarinnar og treysta á að Utrecht leggi PSV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×