Innlent

Miðflokkurinn svarar frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Allir þingmenn Miðflokksins standa að baki tillögunni.
Allir þingmenn Miðflokksins standa að baki tillögunni. vísir/Sigurjón

Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um viðspyrnu við vímuefnavanda og fíkn. Málið má kalla andsvar þeirra við frumvarpi heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta sem flokkurinn hefur verið mótfallinn.

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, er flutningsmaður tillögunnar en hana styðja allir þingmenn flokksins.

Í tillögunni segir: „Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að leggja fram áætlun um að öllum sem glíma við fíkn hvers konar eða vímuefnavanda standi til boða viðeigandi meðferð.“

Verði tillagan samþykkt ber heilbrigðisráðherra að leggja slíka áætlun fram fyrir 1. janúar 2022.

Í greinargerð er vísað í langa biðlista eftir meðferðarúrræðum og þá segir að frumvarp Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um aflglæpavæðingu neysluskammta sé hvorki lausn á vímuefnavanda né hluti af lausninni. Vitnað er í umsögn Læknafélags Íslands þar sem félagið leggur áherslu á að efla eigi meðferðarúrræði fyrir þá sem berjast við fíkn.

Í greinargerðinni segir jafnframt að afskipti lögregluyfirvalda vegna afbrota, nytjastuldar og eignaspjalla megi að einhverju leyti rekja til fólks sem hafi á þeim tíma verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. „Það má því segja að þjóðfélagið, löggæslan, heilbrigðiskerfið og félagsleg úrræði beri umtalsverðan kostnað af þeirri skaðsemi sem áfengi og vímuefni hafa á samfélagið. Kostnaður ríkisins er mun meiri við að hafa sjúkt fólk annaðhvort á stofnunum eða á vergangi en að hjálpa þeim sem eftir hjálpinni sækjast án tafar og stuðla þar með að fullri þátttöku þeirra í samfélaginu sem heilbrigðra einstaklinga.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.