Erlent

Fjórir lögreglumenn ákærðir vegna dauða Floyd

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumennirnir fjórir sem eru ákærðir vegna dauða Georges Floyd. Frá vinstri: Derek Chauvin, J. Alexander Kueng, Thomas Lane og Tou Thao.
Lögreglumennirnir fjórir sem eru ákærðir vegna dauða Georges Floyd. Frá vinstri: Derek Chauvin, J. Alexander Kueng, Thomas Lane og Tou Thao. AP/lögreglustjórinn í Hennepin-sýslu

Alríkisákærudómstóll í Bandaríkjunum hefur gefið út ákæru á hendur fjórum fyrrverandi lögreglumönnum vegna dauða Georges Floyd í Minneapolis í fyrra. Fjórmenningarnir eru sakaðir um að hafa vísvitandi brotið á borgararéttindum Floyd þegar þeir handtóku hann.

Myndband af því þegar fjórir lögreglumenn handtóku Floyd, óvopnaðan blökkumann, fór sem eldur í sinu um samfélagsmiðla og fjölmiðla í fyrra. Á því sást hvítur lögreglumaður hvíla hné sitt á hálsi Floyd í meira en níu mínútur þrátt fyrir að Floyd segðist ítrekað ekki ná andanum og vegfarendur reyndu að mótmæla aðförunum.

Dauði Floyd varð kveikjan að mikilli mótmælabylgju gegn lögregluofbeldi og kerfislægri kynþáttahyggju sem gekk um Bandaríkin og fleiri lönd í fyrra.

Lögreglumaðurinn sem olli dauða Floyd, Derek Chauvin, var sakfelldur fyrir morð og manndráp fyrir ríkisdómstól í Minnesota í síðasta mánuði. Hann bíður nú ákvörðunar refsingar í því máli.

Í alríkismálinu sem nú hefur verið höfðað er Chauvin ákærður fyrir að að brjóta gegn frelsi Floyd til að vera laus við ósanngjarna handtöku og valdbeitingu lögreglumanns. Þrír félagar hans eru einnig ákærðir vegna ósanngjarnrar handtöku þar sem þeir stöðvuðu Chauvin ekki þegar hann kraup á hálsi Floyd. Allir fjórir eru ákærðir fyrir að útvega Floyd ekki læknisaðstoð, að sögn AP-fréttastofunnar.

Til viðbótar er Chauvin ákærður vegna handtöku sem átti sér stað árið 2017. Þar er hann sakaður um að hafa tekið fjórtán ára dreng hálstaki, borið hann í höfuðið með vasaljósi og síðan hvílt hné sitt á hálsi hans og herðum þar sem hann lá á jörðinni handjárnaður.

Þung refsing getur legið við borgararéttindabrotum sem þessum, allt að dauðadómur eða lífstíðarfangelsi. AP segir að slíkt sé þó afar fátítt. Í tilfelli Chauvin gæti hann átt allt frá fjórtán til rúmlega tuttugu og fjögurra ára fangelsisvist yfir höfði sér verði hann fundinn sekur. Refsinguna afplánaði hann þá samhliða þeirri refsingu sem hann hlýtur í sjálfu morðmálinu.


Tengdar fréttir

Lögmaður Chauvins fer fram á ný réttarhöld

Lögmaður Dereks Chauvin, fyrrverandi lögregluþjónn sem var nýverið dæmdur fyrir að myrða George Floyd í Minneapolis, hefur farið fram á að ný réttarhöld um málið fari fram. Tvær vikur eru síðan Chauvin var sakfelldur en Eric Nelson, lögmaðurinn, segir þau hafa verið ósanngjörn.

Derek Chauvin fundinn sekur um morðið á George Floyd

Kviðdómarar í Minneapolis í Bandaríkjunum hafa fundið fyrrverandi lögregluþjóninn Derek Chauvin sekan um morðið á George Floyd. Myndbönd af dauða Floyd í haldi lögreglu fóru eins og eldur í sinu um Bandaríkin og leiddu til umfangsmikilla mótmæla og jafnvel óeirða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.