Erlent

Ferða­menn dæmdir í lífs­tíðar­fangelsi fyrir að myrða lög­reglu­þjón á Ítalíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Finnegan Lee Elder hlustar á dómara kveða upp dóm sinni. Hægra megin við hann, með ljósa grímu, er Gabriel Natale-Hjorth.
Finnegan Lee Elder hlustar á dómara kveða upp dóm sinni. Hægra megin við hann, með ljósa grímu, er Gabriel Natale-Hjorth. AP/Gregorio Borgia

Tveir bandarískir ferðamenn voru í dag dæmdir fyrir að myrða ítalskan lögregluþjón nærri hóteli þeirra í Róm árið 2019. Mennirnir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir morðið en þeir héldu því fram að um sjálfsvörn hefði verið að ræða.

Þeir voru einnig fundnir sekir um tilraun til fjárkúgunar, mótþróa gegn valdstjórn og að bera stóran hníf án tilefnis.

Í júlí 2019 voru þeir Finnegan Lee Elder (19) og Gabriel Christian Natale-Hjorth (18) staddir í Róm í fríi. Eftir deilur við fíkniefnasala stakk Elder lögregluþjóninn Mario Cerciello Rega ellefu sinnum.

Elder viðurkenndi að hafa stungið Rega, samkvæmt frétt Reuters, en Bandaríkjamennirnir sögðust hafa talið Rega og starfsfélaga hans vera þrjóta sem hafi ætlað að ræna þá. Skömmu áður höfðu þeir reynt að kaupa fíkniefni af fíkniefnasala en sá mun hafa reynt að stinga af.

Elder og Natale-Hjorth náðu að grípa tösku úr höndunum á manni sem var með fíkniefnasalanum og komust seinna að samkomulagi um að hitta þá og láta þá fá töskuna aftur í skiptum fyrir peningana þeirra.

Frá dómsuppkvaðningunni í dag.

Í stað fíkniefnasala mættu Rega og lögregluþjónninn Andra Varriale. Báðir voru óeinkennisklæddir og sagði Elder fyrir dómi að lögregluþjónarnir hefðu ráðist á sig og Natale-Hjorth. Því neitaði Varriale. Hann sagði þá hafa greinilega tilkynnt að þeir væru lögregluþjónar.

Í ryskingum þeirra stakk Elder Rega ellefu sinnum með 18 sentímetra löngum hníf sem hann hafði flutt með sér frá Bandaríkjunum. Natale-Hjorth hélt því fram að hann hefði ekki vitað af því að Rega hefði tekið hníf með sér en fingrafar hans fannst þó á felustað hnífsins á hótelherbergi þeirra.

Reuters segir fjölmiðla á Ítalíu hafa sagt frá því að fíkniefnasalinn hafi verið uppljóstrari lögreglunnar og hann hafi beðið um hjálp við að ná töskunni aftur.

Dómarar höfnuðu málflutningi Bandaríkjamannanna alfarið og var þeim veitt þyngsta refsing sem mögulegt var. Með góðri hegðun gæti þeim verið sleppt á skilorð eftir 21 ár. Þeir geta þó áfrýjað dómnum.

Francesco Petrelli, lögmaður Natale-Hjorth, segir dóminn vera rangan og sláandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.