Erlent

Innrás söngtifanna: Billjónir skordýra skríða upp á yfirborðið eftir sautján ár neðanjarðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Söngtifa skríður upp úr jörðinni í Maryland í Bandaríkjunum. Söngtifurnar eru yfirleitt um þrír sentímetrar að stærð, þó þær líti ef til vill út fyrir að vera stærri á myndinni.
Söngtifa skríður upp úr jörðinni í Maryland í Bandaríkjunum. Söngtifurnar eru yfirleitt um þrír sentímetrar að stærð, þó þær líti ef til vill út fyrir að vera stærri á myndinni. AP/Carolyn Kaster

Á næstu dögum munu billjónir söngtifa skríða upp úr jörðinni í Bandaríkjunum til að þroskast, makast, og koma fyrir eggjum. Þegar eggin klekjast skríða afkvæmin ofan í jörðina, eingöngu til þess að koma aftur upp á yfirborðið sautján eða þrettán árum síðar.

Tímalengdin fer eftir því hvaða tegund söngtifa er að ræða en þær eru sjö. Samkvæmt National Geographic er vitað um fimmtán árganga söngtifa í Bandaríkjunum og sá sem er að koma upp á yfirborðið þessa dagana kallast „Brood X“ og er hann á austurströnd Bandaríkjanna.

Brood X eru meðal stærstu söngtifa sem vitað er um.

Sérfræðingar sem AP fréttaveitan ræddi við hafa verið við rannsóknir í Maryland og áætla að þar megi finna um milljón söngtifur á hverri ekru (rúmlega fjögur þúsund fermetrar). Í einni lítilli skóflustungu, fundu þau sjö söngtifur.

Hér má sjá útskýringarmyndband AP fréttaveitunnar.

Dýrin skríða upp úr jörðinni þegar hún verður tæplega 18 gráðu heit og er það að gerast fyrr núna en áður vegna veðurfarsbreytinga. Þá eru tilteknir staðir þar sem jörðin er heitari en annarsstaðar og er ekki vitað með vissu hvenær söngtifurnar skríða upp úr jörðinni í massavís, þó margar þeirra hafi þegar fundist víða.

Þegar söngtifurnar koma upp úr jörðinni leggja þær mikið kapp á að komast frá jörðinni. Þær skríða upp allt sem er í boði og þá helst tré. Þar kalla karldýrin af miklum látum eftir maka. Heppnist það þarf að verpa eggjum og oftar en ekki deyja dýrin svo í kjölfarið.

Þetta ferli gerist hvergi annars staðar en í Bandaríkjunum. Fyrsta tilfellið sem skráð er í sögubækurnar var í Massachusetts árið 1634. Þá héldu strangtrúaðir innflytjendur að engisprettuplága eins og þær sem nefndar eru í gamla testamentinu væri að skella á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×