Innlent

Íslenskt par talið hafa grætt 84 milljónir vegna sölu lyfseðilskyldra lyfja

Nadine Guðrún Yaghi og Birgir Olgeirsson skrifa
Við húsleit hjá manninum fannst mikið magn lyfseðilskyldra lyfja.
Við húsleit hjá manninum fannst mikið magn lyfseðilskyldra lyfja. Vísir/Egill

Íslenskt par er grunað um að hafa grætt rúmlega 84 milljónir króna á sölu og dreifingu lyfseðilskyldra lyfja. Talið er að parið, ásamt tveimur öðrum, hafi stundað glæpi kerfisbundið í tæpan áratug. 

Lögreglan hefur miklar áhyggjur af vaxandi tökum skipulagðra glæpahópa í íslensku samfélagi eins og kom fram í Kompás sem birtur var hér á Vísi í morgun. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært íslenskan karlmann um sextugt fyrir að hafa allt frá árinu 2013 selt og afhent fjölda fólks lyfseðilskyld lyf og ávana- og fíkniefni, án þess að hafa leyfi Lyfjastofnunar.  Við húsleit hjá manninum fannst mikið magn lyfseðilskyldra lyfja á borð við Rítalín, OxiContyn og Contalgin. 

Þá eru maðurinn og eiginkona hans, sem fædd er 1982, einnig ákærð fyrir peningaþvætti en lögregla telur að parið hafi hagnast um rúmlega 84 milljónir með sölu og dreifingu mannsins á lyfjunum. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að parið gat ekki gefið upp trúverðugar skýringar á innkomu sinni. Þá eru tveir til viðbótar ákærðir vegna málsins fyrir peningaþvætti og skotvopnalagabrot.

Í Kompás kom fram að lögreglan hafi gríðarlegar áhyggjur af vaxandi tökum glæpahópa á Íslandi. Aukin harka, þaulskipulögð tryggingasvik upp á fleiri hundruð milljónir og tugmilljarða fíkniefnaviðskipti einkenni nú undirheima Íslands.

Hugmyndir hafa verið uppi um að lögleiðing fíkniefna myndi kippa fótunum undan starfsemi skipulagðra glæpahópa.

„Þetta held ég að sé ekki rétta leiðin því eins og með lyf, læknalyf og svoleiðis, hvernig gengur okkur að halda utan um það? Þar erum við að sjá stóran markað á götunni. Þannig að ég held að það sé ekki rétta nálgunin að fara lögleiða þessi efni,“ sagði Margeir Sveinsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar í Kompás. 


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.