Erlent

Boris í bobba: Rannsaka hvort kosningasjóðir hafi verið notaðir ólöglega

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra, var undir mmiklum þrýstingi á breska þinginu í dag.
Boris Johnson, forsætisráðherra, var undir mmiklum þrýstingi á breska þinginu í dag. Breska þingið/Jessica Taylor

Yfirkjörstjórn Bretlands tilkynnti í dag að hefja ætti formlega rannsókn sem snýr að Boris Johnson, forsætisráðherra. Rannsóknin snýr að því hvort Johnson hafi notað kosningasjóði til að gera endurbætur á íbúð sinni við Downing-stræti.

Í tilkynningu frá yfirkjörstjórninni segir að upplýsingar hafi litið dagsins ljós sem bendi til þess að mögulega hafi slíkt brot verið framið.

Öll spjót hafa beinst að forsætisráðherranum undanfarna daga eftir að hann var fyrst sakaður um að hafa notað kosningasjóði Íhaldsflokksins til framkvæmda í íbúð forsætisráðherra, sem er staðsett í Downing-stræti 11, yfir skrifstofum ráðuneytisins.

Johnson sjálfur segist hafa notað eigin fé til framkvæmdanna, til viðbótar við þau þrjátíu þúsund pund sem hann átti rétt á úr ríkissjóði.

Samkvæmt grein Sky News láku tölvupóstar sem sýna að auðugur bakhjarl Íhaldsflokksins bauð því að gefa flokknum 58 þúsund pund í fyrra. Samkvæmt póstunum var það vegna kostnaðar flokksins við eitthvað sem kallað var „Downing-strætis sjóðurinn“. Sá bakhjarl nefndi einnig fimmtán þúsund punda framlag, en það framlag er það eina sem skráð er í formleg skjöl flokksins.

Johnson var undir miklum þrýstingi á þingi í dag en kom sér að mestu undan því að svara spurningum þingmanna um málið. Þegar hann var spurður að því hvort skattgreiðendur, Íhaldsflokkurinn, bakhjarl flokksins eða hann sjálfur hefði greitt fyrir framkvæmdirnar sagði hann:

„Ég hef greitt fyrir framkvæmdirnar.“

Hvorki forsætisráðuneytið né Íhaldsflokkurinn hafa neitað því að flokkurinn hafi upprunalega greitt fyrir framkvæmdirnar úr kosningasjóðum flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×