Erlent

Stefna að því að skjóta fyrsta hluta nýrrar geimstöðvar á loft á morgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrsta hluta geimstöðvarinnar verður skotið á loft með Long March 5B eldflaug.
Fyrsta hluta geimstöðvarinnar verður skotið á loft með Long March 5B eldflaug. AP/Guo Wenbin

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Kína stefna að því að skjóta fyrsta hluta nýrrar geimstöðvar þeirra á loft á morgun. Þetta verður fyrsta af ellefu geimskotum sem tengjast byggingu geimstöðvarinnar, sem taka á í gagnið undir lok næsta árs.

Geimstöðin ber heitið Tianhe eða Himneskt samlyndi.

Fyrsta hluta hennar verður skotið á loft frá eyjunni Hainan á Long March 5B eldflaug, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Seinna meir stendur til að senda upp tvo hluta geimstöðvarinnar til viðbótar, auk fjögurra birgðaskipa og fjögurra mannaðra geimferða, þar sem geimfarar munu vinna að því að ljúka gerð geimstöðvarinnar.

Þá er verið að þjálfa tólf geimfara sem senda á til geimstöðvarinnar og munu búa þar. Þrír geimfarar munu geta búið þar í um hálft ár í senn.

Fullkláruð á geimstöðin að vera um 66 tonn að þyngd, sem er töluvert minna en Alþjóðlega geimstöðin sem er um 450 tonn. Mögulegt verður þó að stækja Tianhe í framtíðinni.

Undirbúningur Kínverja hófst á tíunda áratug síðustu aldar en Kína var meinuð aðkoma að alþjóðlegu geimstöðinni, að hluta til vegna tengsla Geimvísindastofnunar Kína við her landsins og þeirrar leyndar sem hvílir yfir störfum hennar.

Á síðustu árum hefur tveimur frumgerðum að geimstöð verið skotið á braut um jörðu frá Kína. Tiangong-1 var skotið á loft árið 2011 en árið 2016 misstu Kínverjar stjórn á henni og hún brann upp í gufuhvolfinu. Tiangong-2 var látið brenna upp árið 2018.

Þegar Tianhe verður tilbúin verða tvær geimstöðvar á braut um jörðu. Þá segjast Rússar ætla að gera sína eigin geimstöð á næstu árum.

Á tiltölulega skömmum tíma hafa Kínverjar byggt upp töluverða reynslu í geimferðum. Kína varð þriðja ríkið til að senda menn út í geim sjálfstætt árið 2003, á eftir Sovétríkjunum og Bandaríkjunum. Þá hafa Kínverjar sent geimför til tunglsins og stendur til að lenda vélmenni á Mars á næstu vikum.

Þá hafa ráðmenn í Kína sagt að til standi að reyna að koma upp geimstöð á tunglinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.