Innlent

Greinilegt að fólk sé ekki að fara í sýnatöku þrátt fyrir einkenni

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir brýnir fyrir fólki að fara í sýnatöku finni það fyrir einkennum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir brýnir fyrir fólki að fara í sýnatöku finni það fyrir einkennum. Vísir/Vilhelm

Allir þrír sem greindust utan sóttkvíar í gær tengjast hópsmitinu í Þorlákshöfn. Sóttvarnarlæknir brýnir fyrir fólki að fara í sýnatöku við minnstu einkenni. Það sé greinilegt að sumir séu ekki að bregðast við því.

Sextán greindust smitaðir í gær og tengist meirihluti smitanna hópsmitinu í Ölfusi. Aðrir tengjast hópsmitinu á Jörfa. Þrettán voru í sóttkví en Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir allan gang á því hversu lengi sóttkví hafði staðið yfir.

Varðandi útbreiðslu segir hann jákvætt að tilfellin megi rekja til hópsmitanna. „En þetta er náttúrulega alltaf eitthvað útbreitt þar sem þetta er dálítið vítt í kringum þessi hópsmit og þá eru það aðilar sem ekki hafa komið upp í smitrakningunni sjálfri og eru þannig að greinast þegar við erum að fara út í víðtækar sýnatökur í kringum þessi tilfelli,“ segir Þórólfur.

Grunnskólinn á Þorlákshöfn er lokaður í dag og flestir foreldrar héldu leikskólabörnum heima til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.Vísir/Vilhelm

Hann segir stöðuna ekki gefa tilefni til þess að herða aðgerðir. „Það virðist vera sem það takist að halda þessu í horfinu með þessum aðgerðum sem eru í gangi núna. En það virðist þó ætla að taka einhvern lengi tíma að ná að útrýma þessu.“

Hann segir marga með lítil einkenni og brýnir fyrir fólki að fara í sýnatöku við minnsta tilefni. Hópsmitið á Suðurlandi megi meðal annars rekja til þess að fólk hafi ekki brugðist nógu snemma við því.

„Það má allavega rekja það til þess að fólk hefur ekki farið í sýnatöku þegar fólk er búið að vera með einkenni í töluverðan tíma og er í vinnunni og annars staðar. Við höfum verið að klifa á því töluverðan tíma að fólk virkilega gæti að sér og fari í sýnatöku við minnsta tilefni. Það er greinilegt að fólk er ekki alveg að fara eftir því.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.